Innlent

Leiga tæpur helmingur af tekjunum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra.
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra.
Húsaleiga nemur að meðaltali um 42 prósentum af ráðstöfunartekjum heimilis.

Þetta sýna niðurstöður skoðanakönnunar sem Gallup gerði fyrir félags- og húsnæðismálaráðherra.

Um eitt prósent leigjenda greiða leigu sem er innan við 25 prósent af ráðstöfunartekjum heimilisins en það er það markmið sem sett er fram í frumvarpi félags- og húsnæðismálaráðherra um almennar félagsíbúðir.

Niðurstöðurnar sýna líka að um 90 prósent leigjenda og svipað hlutfall íbúðareigenda telja óhagstætt að leigja íbúðarhúsnæði hér á landi um þessar mundir og rúmlega 80 prósent aðspurðra í báðum hópum telja of lítið framboð af hentugu íbúðarhúsnæði til leigu.

Könnunin var gerð að beiðni ráðherra á tímabilinu 19. nóvember til 9. desember. Úrtakið var leigjendur/eigendur húsnæðis, átján ára og eldri af öllu landinu úr þjóðskrá og viðhorfahópi Gallup. Fjöldi svarenda var 786 leigjendur og 2.226 eigendur.

Í erindi sem Eygló Harðardóttir hélt á opnum fundi á Grand Hótel sagði hún niðurstöðuna vera ótvírætt þá að mikil þörf væri á uppbyggingu leigumarkaðarins hér á landi auk þess sem húsaleigan er almennt há og mörgum einstaklingum ofviða.

„Þau húsnæðisfrumvörp sem nú eru á lokastigi í þinginu munu mæta brýnni þörf á leigumarkaðnum, einkum tekjulágra fjölskyldna og ungs fólks,“ sagði Eygló Harðardóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×