Innlent

Leifsstöð stækkar og fær nýja fráveitu

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Umfangið er farið að þrengja svo að veggjum að stækka verður stöðina út og endurbæta innviði.
Umfangið er farið að þrengja svo að veggjum að stækka verður stöðina út og endurbæta innviði. fréttablaðið/gva
Aukinn ferðamannafjöldi og breyttar áherslur í sjávarútvegi setja nú mark sitt á umfangið við Leifsstöð en þar eru hafnar framkvæmdir sem samanlagt ná yfir sex þúsund fermetra.

Framkvæmdirnar hófust í þessum mánuði. Verið er að stækka suðurbygginguna um fimm þúsund fermetra og á það að bæta aðgengi fyrir þann fjölda ferðamanna sem kemur í Leifstöð úr rútu, það er að segja ekki um landganginn. Verklok eru áætluð árið 2016 að sögn Sveins Valdimarssonar, skipulagsfulltrúa á Keflavíkurflugvelli.

Svo er verið að reisa þúsund fermetra viðbyggingu við fragtmiðstöð fyrir IGS, sem er flugþjónustufyrirtæki undir hatti Icelandair. Mikil áhersla er lögð á það núorðið að koma ferskum fiskafurðum sem fyrst á erlenda markaði svo enn frekar reynir á þessa þjónustu við Leifsstöð.

Guðni Sigurðsson, talsmaður Isavia, segir að einnig sé nýbúið að stækka farangursflokkunarkerfið, það er að segja kerfið sem tekur við farangri við innritun og fleytir því að viðkomandi flugvél, og þannig tvöfalda afkastagetu þess. Hann segir að þar sem álagstímarnir séu afar þungir á Leifsstöð, fyrst í morgunsárið þegar flestar Evrópuferðirnar hefjast og svo síðdegis þegar komið er að Ameríkuferðum, verði þetta kerfi að vera skilvirkara en víðast annars staðar.

Það er að ýmsu að huga á fjölmennum stað því Sveinn segir að fyrir liggi að taka fráveitukerfið í gegn en nú rennur skólp út í sjó í klettóttri fjörunni milli Gálga og Básenda. Áformin, sem enn eru reyndar á frumstigi, beinast að því að koma upp hreinsistöð og lengri lögn svo skólpið fari lengra út í sjó. „Verið er að hefja undirbúningshönnun fyrir nýja hreinsistöð og gera þarfagreiningu á verkefninu,“ segir Guðni. „Það mun svo fara í útboð síðar á árinu og við stefnum að því að þetta verði komið í notkun eftir um það bil tvö ár.“ Að sögn Magnúsar H. Guðjónssonar, framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja, mælist engin mengun þar við fjöruna, sem kann að hljóma undarlega miðað við að um tuttugu þúsund manns fara um Leifsstöð á sólarhring. Lánið liggur hins vegar í því að sterkur straumur fer fyrir nesið og hirðir allt sem fyrir verður út á haf. Samkvæmt lögum ber þó að búa þannig um fráveitumál í þéttbýlum að skolpið fari ekki óheft til sjávar og fylgir Leifsstöð áætlun til að ná því markmiði.

Um tuttugu þúsund manns fara um Leifsstöð á sólarhring. Um 3.200-3.500 manns starfa þar.

Heimild: Isavia og Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×