Erlent

Leifar af smokki fundust í botnlanga konu sem hafði gleypt hann fyrir slysni tveimur vikum áður

Birgir Olgeirsson skrifar
Áferð botnlangans kom læknum á óvart.
Áferð botnlangans kom læknum á óvart. Vísir/Getty
Læknar í Kamerún fundu leifar af smokki i botnlanga konu á þrítugsaldri sem hafði gleypt hann fyrir slysni tveimur vikum áður en botnlanginn var fjarlægður. Greint var fyrst frá málinu í læknatímaritinu Journal of Medical Case Reports  og hafa fjölmiðlar víða um heim gert því skil síðan þá. Höfundur skýrslunnar er læknirinn Carlson B. Sama, sem starfar við skurðlæknadeild Buea-háskólans í Kamerún, en hann segir konuna hafa kvartað undan verkjum í kviði.

Hafði verkurinn ágerst dagana áður en hún leitaði til læknis og slógu hefðbundin verkjalyf ekki á hann. Grunur læknanna beindist strax að botnlanga konunnar en við skoðun í ómsjá reyndist hann vera bólgin og hafði vökvi safnast upp í honum. Var konan send beint í aðgerð þar sem botnlanginn var fjarlægður án allra vandræða. 

Þegar læknarnir handléku botnlangann reyndist vera undarleg áferð á honum. Við nánari skoðun fundust leifar af smokki inni í honum. Læknarnir ræddu síðar við konuna sem uppljóstraði að hún hefði fyrir slysni gleypt smokkinn tveimur vikum áður þegar hún veitti kærasta sínum munnmök.

Hún minntist ekki á það við lækna fyrir aðgerðina þar sem hún taldi sig hafa skilað smokknum af sér fimm dögum eftir að hafa gleypt hann. Í greininni halda læknar því fram að smokkurinn hafi tæst í sundur þegar hann fór í gegnum meltingarkerfi konunnar en partur af honum hafi fests í botnlanganum. Í niðurlagi greinarinnar kemur fram að aðgerðina heppnaðist fullkomlega og var konan útskrifuð af sjúkrahúsinu fjórum dögum eftir aðgerðina. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×