Innlent

Leifar af fellibylnum Nicole nálgast Ísland

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Fellibylurinn Nicole við Bermúda.
Fellibylurinn Nicole við Bermúda. vísir/afp
Gert er ráð fyrir að lægð gangi yfir landið á miðvikudag með sunnan stormi og rigningu. Um er að ræða leifar af fellibylnum Nicole og að stormurinn standi yfir í meira en sólarhring, að því er segir á vef Veðurstofunnar.

„Lægðin sem gert er ráð fyrir að valdi umræddum stormi á Íslandi er leifin af fellibylnum Nicole. Sá fellibylur er athyglisverður og þá einkum fyrir það hvað hann hefur verið langlífur. Nicole hefur verið á hægri siglingu djúpt úti fyrir austurströnd Bandaríkjanna og lamdi á Bermúdaeyjum á fimmtudag síðastliðinn, þá fellibylur af þriðja styrkleikaflokki (af 5),“ segir á vef Veðurstofunnar.

Ekki verður lengur um fellibyl að ræða þegar Nicole nálgast landið heldur venjulega stormlægð sem Íslendingar þekkja vel.

Búist er við að hvassast verði vestanlands og að á norðanverðu Snæfellsnesi megi gera ráð fyrir varasömum vindstrengjum. Á Norður- og Austurlandi verði þurrt að kalla og að hiti gæti náð í um eða yfir 15 stig í hnjúkaþey (hlýr vindur sem stendur af fjöllum). Spár gera ráð fyrir að stormurinn standi yfir í meira en sólarhring og að ekki fari að draga almennilega úr vindi fyrr en síðdegis á fimmtudag.

Í dag má gera ráð fyrir austlægri átt, víða þremur til átta metrum á sekúndu, en vestlægari á morgun. Dálítil væta í flestum landshlutum og hiti fimm til tíu stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×