Erlent

Leiðtogi spænskra sósíalista segir af sér

Atli Ísleifsson skrifar
Pedro Sanchez.
Pedro Sanchez. Vísir/AFP
Pedro Sanchez, leiðtogi Sósíalistaflokksins á Spáni (PSOE), hefur sagt af sér formennsku í flokknum. Mögulegt er að afsögn hans muni binda endi á margra mánaða þrátefli í spænskum stjórnmálum.

Sanchez tilkynnti um afsögn sína eftir atkvæðagreiðslu í miðstjórn Sósíalistaflokksins þar sem greidd voru atkvæði um stuðning við myndun ríkisstjórnar sem leidd yrði af hægrimönnum, en Sanchez hefur verið mjög andsnúinn slíkum ráðahag.

Stjórnarkreppa hefur ríkt í landinu síðustu níu mánuði, eða allt frá þingkosningunum í desember síðastliðinn. Hægriflokkur Mariano Rajoy, starfandi forsætisráðherra, sem er stærsti flokkurinn á þingi, hefur sóst eftir að mynda ríkisstjórn en án árangurs.

Aðrar þingkosningar voru svo haldnar í júní, en líkt og áður tókst engum flokki að ná hreinum meirihluta.

Fyrr í vikunni sögðu sautján af 35 fulltrúum í miðstjórn PSOE af sér, til að mótmæla forystu Sanchez.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×