Fótbolti

Leiðtogi Norður-Kóreu elskar ítalska boltann

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Kim og Rodman horfa saman á körfubolta í Norður-Kóreu. Ógleymanlegt.
Kim og Rodman horfa saman á körfubolta í Norður-Kóreu. Ógleymanlegt. vísir/afp
Hinn umdeildi leiðtogi Norður-Kóreu, Kim Jong-Un, kemur reglulega á óvart og nú hefur komið í ljós að hann fylgist ítarlega með ítalska boltanum.

Svo segir ítalski þingmaðurinn Antonio Razzi en hann er nýkominn úr heimsókn frá Norður-Kóreu þar sem hann hitti Kim.

Í apríl síðastliðnum náði hinn 18 ára gamli Kwang-Song Han þeim árangri að verða fyrsti Norður-Kóreumaðurinn til þess að skora í ítalska boltanum. Hann skoraði þá fyrir Cagliari í leik gegn Palermo.

Kim fylgist ekki bara með framgangi síns manns í deildinni heldur úrvalsdeildinni í heild sinni. Missir varla af leik og ekki síst þegar Juventus er að spila.

„Hann veit allt um ítölsku úrvalsdeildina og NBA,“ sagði Razzi en það gleymist seint er Kim tók á móti Dennis Rodman og fleiri gömlum NBA-kempum.

Juventus er aðalliðið í Norður-Kóreu og myndu líklega færri komast að en vilja ef liðið myndi mæta til Pyongyang og spila.

„Pyongyang-leikvangurinn er risastór en samt yrði ekki eitt autt sæti þar á leik með Juventus,“ sagði Razzi sem ætlar að hitta Norður-Kóreumanninn í ítalska boltanum og færa honum kveðjur frá Kim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×