Erlent

Leiðtogi Evruhópsins gagnrýndur fyrir ummæli um áfengi og konur

Atli Ísleifsson skrifar
Jeroen Dijsselbloem tók við sem leiðtogi Evruhópsins frá árinu 2013.
Jeroen Dijsselbloem tók við sem leiðtogi Evruhópsins frá árinu 2013. Vísir/AFP
Það er ekki hægt að eyða peningum í áfengi og konur og svo reikna með að fá aðstoð, sagði Jeroen Dijsselbloem, fjármálaráðherra Hollands og leiðtogi Evruhópsins í viðtali við þýskt dagblað.

Dijsselbloem hefur nú verið harðlega gagnrýndur fyrir ummælin og hafa samflokksmenn hans í hollenska Verkamannaflokknum (PVDA) krafist afsagnar hans.

Dijsselbloem mun brátt láta af embætti fjármálaráðherra Hollands þar sem flokkur hans, DVDA, beið afhroð í hollensku þingkosningunum fyrir viku. Ráðherrann getur þó setið áfram sem leiðtogi Evruhópsins fram á næsta ár, en þar er einnig sótt að honum.

„Því fyrr sem hann fer, því betra. Hann hefur misst af kjörnu tækitæki til að halda sér saman,“ segir Matteo Renzi, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu.

„ESB verður ekki trúverðugt sem sameiginlegt verkefni fyrr en þann dag sem herra Dijsselbloem hættir sem leiðtogi Evruhópsins og biður þau lönd og þær þjóðir afsökunar sem hann hefur sært með ummælum sínum,“ segir portúgalski forsætisráðherrann Antonio Costa.

Skotið á ríki sunnarlega í álfunni

Með orðum sínum eru Renzi og Costa að gagnrýna orð Dijsselbloem sem á að hafa sagt í samtali við þýska blaðið FAZ að sem jafnaðarmaður leggi hann mikla áherslu á samstöðu. „Menn geta ekki eytt öllum peningum sínum í áfengi og konur og beðið svo um hjálp,“ sagði Dijsselbloem, en orðin hafa verið túlkuð sem gagnrýni á evrulönd sunnarlega í álfunni.

Talsmaður Dijsselbloem hefur reynt að skýra hvað hann átti við og segir að gagnrýnin hafi alls ekki beinst að einhverju ákveðnu ríki, heldur snerist frekar að því að benda á að samstaða sé nátengd ábyrgð.

Talið er að framtíð Dijsselbloem sem leiðtogi Evruhópsins muni ráðast á næstu dögum, en Peter Kazimir, fjármálaráðherra Slóvakíu hefur verið nefndur sem líklegur arftaki hans.

Dijsselbloem tók við sem leiðtogi Evruhópsins frá árinu 2013.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×