Erlent

Leiðtogar ESB ríkja fagna afmæli Rómarsáttmálans

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Leiðtogar Evrópusambandsins, ásamt Frans páfa í gærkvöldi.
Leiðtogar Evrópusambandsins, ásamt Frans páfa í gærkvöldi. Vísir/EPA
Leiðtogar 27 ríkja Evrópusambandsins munu hittast í dag Róm, höfuðborg Ítalíu. Er það meðal annars til þess að fagna afmæli 60 ára afmæli Rómarsáttmálans en einnig til að ræða framtíð sambandsins. BBC greinir frá.

Rómarsáttmálinn svokallaði var undirritaður af leiðtogum sex ríkja árið 1957, en með honum var lagður grunninn að Evrópusambandi nútímans. Sáttmálinn kvað á um stofnun efnahagssambands Evrópu og skrifuðu sex ríki undir hann, en það voru Belgía, Frakkland, Ítalía, Lúxemborg, Holland og Vestur-Þýskaland.

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, sem er 28. ríki sambandsins, mun ekki mæta á fundinn vegna Brexit málsins.

Að loknum fundi í dag munu leiðtogar sambandsins rita nöfn sín undir sameiginlega yfirlýsingu til heiðurs sáttmálanum þar sem ríkin munu leggja áherslu á staðfestu sína og áhuga á nánari Evrópusamruna og sterkara Evrópusambandi.

Öryggisráðstafanir hafa verið hertar til muna í borginni, eftir árásina í London síðastliðinn miðvikudag.

Leiðtogarnir hittu meðal annars Frans páfa í gærkvöldi, í Vatíkaninu og hvatti páfinn leiðtogana til þess að horfa til framtíðar en ekki fortíðar og varast hið falska öryggi sem popúlistar í stjórnmálum lofa borgurum um þessar mundir. 

Bandarísk yfirvöld sendu leiðtogum sambandsins hamingjukveðjur í yfirlýsingu þar sem stóð meðal annars að þau óskuðu þess að næstu 60 ár yrðu jafn farsæl og síðustu 60 ár, með auknu öryggi og hagsæld fyrir Evrópubúa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×