Innlent

Leiðindaveður fram eftir morgni í dag

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Hviður hafa mælst yfir 30 metrar á sekúndu við Kjalarnes í morgun.
Hviður hafa mælst yfir 30 metrar á sekúndu við Kjalarnes í morgun. vísir/vilhelm
Veðurstofan varar við stormi á Suður- og Vesturlandi fram eftir morgni í dag. Búast má við snörpum vindhviðum um og yfir 30 metrum á sekúndu við fjöll suðvestanlands, til dæmis á Kjalarnesi. Síðdegis er spáð suðaustan kalda eða strekkingi á landinu með skúrum, en þurru veðri á Norður- og Austurlandi. Lægir og kólnar í kvöld.

Byljótt hefur verið á suðvesturhorninu í morgun og hafa hviður mælst yfir 30 metrar á sekúndu á Kjalarnesi, en versta veðrið er þegar afstaðið undir Eyjafjöllum, að því er segir á vef Veðurstofunnar.

Í dag verður austan og suðaustan 15 til 23 metrar á sekúndu og rigning með köflum, en þegar líða fer á morguninn er búist við 8 til 15 metrum á sekúndu síðdegis og skúrir. Þurrt að kalla á Norður- og Austurlandi. Hiti 3 til 9 stig.

Austan 5 til 13 sunnanlands á morgun og skúrir eða él með hita 0 til 5 stig. Hægari vindur norðantil, þurrt og vægt frost.

Ekki er búist við neinum stórátökum í veðri á morgun en einhver úrkoma mun líklega gera vart við sig í flestum landshlutum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×