Innlent

Leiðin út úr völundarhúsinu

Kristjana Guðbrandsdóttir skrifar
 Rannsókn Halldóru leiðir í ljós að konur þurfa hið minnsta að vera meðvitaðar um leikreglur karla í vinnustaðapólitík og fara úr vörn í sókn.
Rannsókn Halldóru leiðir í ljós að konur þurfa hið minnsta að vera meðvitaðar um leikreglur karla í vinnustaðapólitík og fara úr vörn í sókn. Vísir/Ernir
Þurfa konur að taka upp leikreglur karla til að ná meiri árangri? Halldóra Katla Guðmundsdóttir rannsakaði í meistararitgerð sinni í mannauðsstjórnun við Háskóla Íslands hvort ástæða fyrir ólíkum árangri kynjanna gæti að einhverju leyti legið í mismunandi aðferðum þeirra í vinnustaðapólitík.

Konur í vörn – karlar í sókn

„Meginniðurstaða mín var sú að konur eru ekki jafn árangursmiðaðar og karlar og eru frekar í vörn en sókn,“ segir Halldóra um þátttöku kvenna í vinnustaðapólitík. Halldóra ræddi við karla og konur í íslensku atvinnulífi og hafði það að markmiði að svara tveimur spurningum, hvort kynin beiti sér á ólíkan hátt í vinnustaðapólitík og hvort konur ættu að taka upp leikreglur karla til að ná meiri árangri.

Ættu að kunna reglurnar

„Upplifun viðmælenda minna er að á meðan konur mynda bandalög til að verja sína hagsmuni mynda karlar árangursmiðuð bandalög. Þeir tala oftar saman í bakherbergjum og taka ákvarðanir en konur virðast baktala hver aðra. Karlar virðast vera miklu duglegri að virkja tengslanet sín utan vinnutíma en konur setji heimilið í forgang. Og karlar eru vanari að gera greiða gegn greiða en konur virðast vera feimnari við að innkalla þá og vilja ekki vera ágengar.“

Niðurstöður rannsóknarinnar segir Halldóra gefa vísbendingar um að konur þurfi að minnsta kosti að vera meðvitaðar um leikreglur karla í vinnustaðapólitík til að ná meiri árangri, ef þær kjósa það. „Niðurstöðurnar gefa til kynna að karlar séu meðal annars árangursmiðaðri í pólitískum aðgerðum, metnaðargjarnari, grófari, sjálfsöruggari og ekki eins tilfinningaríkir og konur, sem séu þakklátari, tilfinningaríkari og viðkvæmari en karlar og setji heimilið í forgang,“ segir Halldóra. „Konur ættu að kynna sér leikreglur karla, vera meðvitaðar um þær, en á sama tíma ættu þær að vera meðvitaðar um eigin styrk og nýta hann í sókn fremur en í vörn.“

Tilfinningaforysta

„Staðalímyndir og fordómar hafa verið hindranir í vegi kvenna, en á sama tíma og við streitumst á móti staðalímyndum þá eru kynin ólík og beita ólíkum aðferðum. Staðalímynd karla snýst um að þeir taki völdin en staðalímynd kvenna snýst um að þær sýni umhyggju. Þessar staðalímyndir hafa skapað frekar neikvæða sýn á leiðtogahæfileika kvenna, en við erum smám saman að gera okkur betur grein fyrir kostum kvenlegra eiginleika til forystu. Þar má nefna tilfinningagreind sem þykir góður eiginleiki í forystu, en flestar rannsóknir hafa sýnt að konur hafi forskot á karla þegar kemur að þessum færniþætti. Konur virðast til dæmis vera betri en karlar í tilfinningalegri samkennd, en á sama tíma virðast karlar vera betri en konur þegar kemur að stjórn erfiðra tilfinninga og þar liggur kannski hluti skýringarinnar varðandi erfiða kvennavinnustaði.“ Einn viðmælenda Halldóru telur að kvennavinnustaðir geti verið ljótir þar sem kvennabandalög fari nánast út í einelti og annar nefnir að kvennavinnustaðir hafi þann stimpil að vera erfiðir, því konur séu tuðandi eða neikvæðar, og vill að konur losi sig við þennan stimpil.

Konur í völundarhúsi

Halldóra minnist á að þrátt fyrir aukna menntun, jafnréttislög, lög um feðraorlof og aukna atvinnuþátttöku upplifi konur enn hindranir á leið til stöðuhækkana. Þótt æ fleiri konur komist til metorða og glerþakið svokallaða sé brostið, finni konur sig nú í völundarhúsi.

„Rannsóknir sýna að glerþakið svokallaða sé brostið og að hindranir í vegi kvenna innan fyrirtækja eru orðnar yfirstíganlegri. Leiðin er samt enn flókin og henni má líkja við völundarhús. Í völundarhúsinu eru margar hindranir og þar má nefna staðalímyndir, meiri ábyrgð kvenna innan heimilisins, hefðir innan fyrirtækja, fordóma og svo vinnustaðapólitíkina.“

Hæfilegt magn af skynsamlegri pólitískri hegðun er almennt gagnlegt. „Fólk sem tekur engan þátt í vinnustaðapólitík þarf að gjalda fyrir það, oft með hægari gangi innan fyrirtækisins, það getur tekur langan tíma fyrir það að fá stöðuhækkun, launahækkun og almennt að vera metið að verðleikum. En þeir pólitísku geta líka þurft að gjalda fyrir það að taka of mikinn þátt í vinnustaðapólitík, þeir geta þótt of sjálfmiðaðir og glatað trúverðugleika sínum,“ segir Halldóra. Hún segir vinnustaðapólitík geta orðið verulega neikvæða en að hún geti einnig verið jákvæð ef hagsmunir einstaklinganna sem stunda hana samræmast hagsmunum fyrirtækisins.

Óvissa og pólitík

Hún bendir á að ein helsta orsök vinnustaðapólitíkur sé óvissa. Algengar uppsprettur óvissu innan fyrirtækja séu óskýr markmið fyrirtækis, óljósar mælingar á frammistöðu, illa skilgreind ákvörðunarferli, sterk samkeppni einstaklinga eða hópa, takmarkaðar auðlindir innan fyrirtækisins og allar breytingar. „Það er mikilvægt að stjórnendur séu meðvitaðir um þetta fyrirbæri, hverjar orsakirnar eru, hvernig hegðunin birtist og hvernig hægt sé að halda henni innan skynsamlegra marka. Stjórnendur ættu aldrei að reyna að eyða vinnustaðapólitík en þurfa að stjórna henni og halda henni uppbyggilegri. Hæfilegt magn af henni getur verið jákvætt fyrir fyrirtækið en ef hún verður of mikil og samræmist ekki hagsmunum fyrirtækisins þá getur hún verið skaðleg fyrir það, auk þess að valda streitu á meðal starfsmanna.

Úr vörn í sókn

Vinnustaðapólitík á ekki að snúast um klæki eða brögð sem eru úr takt við gildi einstaklinganna eða eru á kostnað annarra. Konur þurfa ekkert að breyta sér, þær ættu bara að vera meðvitaðar um þær leiðir sem eru líklegar til árangurs og nýta styrkleika sína til að komast þangað. Fyrst og fremst þurfa konur að hafa trú á sjálfum sér og fara úr vörn í sókn.“

Það þarf að breyta leikreglunum

Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisstofu bendir á að margar konur sætti sig ekki við leikreglur karla og vilji ekki taka þátt í þeirri vinnustaðapólitík sem ríkir á íslenskum vinnustöðum.

„Ég er ekki viss um að glerþakið sé brostið, ef þú horfir á hversu fáar konur eru yfirmenn fyrirtækja landsins, þá er heldur langt í land. Kvótalögin eiga eftir að breyta stöðunni hvað varðar aðkomu beggja kynja að ákvarðanatöku og slíku. En ég held að það séu ansi miklar hindranir ennþá sem tengjast til að mynda álagi, verkaskiptingu á heimilum og fleiru.

Mjög margar konur eru ósáttar við ríkjandi leikreglur og vilja ekki taka þátt í þessum heimi og þessum strákaleik. Þessu mikla álagi sem karlmenn sætta sig oftar við, mikilli vinnu og að ýta fjölskyldunni til hliðar. Þetta er eitthvað sem konur vilja ekki sætta sig við, gegndarlausa samkeppni í stað samvinnu og ýmislegt fleira. Ég held að það sé allra hagur að breyta leikreglunum.“

Kristín segist telja viðhorf til vinnu skapa veigamikinn sess í þjóðarsálinni og því þurfi talsverða hugarfarsbreytingu til þess að umbylta kerfinu.

„Það þarf að breyta viðhorfinu til vinnunnar. Vinnan er ekki það sem á að skipta mestu máli í lífinu, heldur fjölskyldan, samfélagið og það að vera virkur þegn í samfélaginu. Vinnan hefur óskaplega mikið vægi í okkar samfélagi. Vinnan göfgar manninn, segjum við til dæmis. Við þurfum að koma því hugarfari á að í íslensku samfélagi sé borin virðing fyrir einkalífinu og fjölskyldunni. Í dag er bara illa séð að fólk fari heim úr vinnunni klukkan fjögur til að sækja börnin, þessu þurfum við að breyta.“

Í rannsókn Halldóru Kötlu um vinnustaðapólitík kemur fram að konur beiti fremur neikvæðum aðferðum en karlar, baktali og niðurrifi. Kristín segist halda þetta lífseiga klisju. Konur séu ekki verri en karlar og auðvelt sé að sanna það með því einu að horfa til vettvangs stjórnmálanna.

„Það væri gaman að sjá samanburð, konur eru ekki verri en karlar, trúi ég. Sjáðu bara Alþingi! Neikvæðni er partur af okkar menningu. Við bregðumst oft við af mikilli neikvæðni, umræðan ber þess sterk merki,“ segir Kristín og stenst ekki mátið að nefna Útvarp Sögu. „Það er alltaf verið að ætla öllum það versta og það er ekki uppbyggilegt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×