Erlent

Leiða saman hesta sína gegn Trump

Samúel Karl Ólason skrifar
John Kasich, Donald Trump og Ted Cruz.
John Kasich, Donald Trump og Ted Cruz. Vísir/Getty
Þeir Ted Cruz og John Kasich, mótframbjóðendur Donalds Trump í keppni Repúblikana um hver verður næsta forsetaefni flokksins í komandi kosningum, hafa ákveðið að mynda einskonar bandalag gegn Trump í forkosningum sem eftir eru fram að flokksþinginu þar sem frambjóðandinn verður valinn.

Þeir ætla þannig að skipta með sér ríkjum, Kasich mun þannig einbeita sér að Oregon og Nýju Mexíkó á næstunni og Cruz ætlar að leggja áherslu á Indiana í byrjun maí. Næsta þriðjudag fer þó forval fram í fimm ríkjum sem Cruz og Kasich ætla ekki að reyna að skipta með sér.

Hugmyndin með þessu er að koma í veg fyrir að Trump, sem er í forystu með langflesta kjörmenn, þá sem sem á endanum útnefna forsetaefnið, nái að safna þeim 1.237 kjörmönnum sem hann þarf til að tryggja sér sigurinn.

Takist það ekki þarf að kjósa aftur á þinginu, sem haldið verður í júlí, og þá gætu úrslit farið á annan veg.

Kosningastjóri Ted Cruz sagði í gærkvöldi að ef Donald Trump hlyti tilnefningu Repúblikana myndi það vera vera hræðilegt fyrir flokkinn. Samkvæmt AP fréttaveitunni er um viðsnúning að ræða hjá Ted Cruz sem einungis í síðustu viku sagðist alfarið andsnúin því að vinna með Kasich gegn Trump.

Donald Trump brást reiður við á Twitter í nótt eins og sjá má hér að neðan. Hann kallaði Ted Cruz „Lyin‘ Ted“ eða lygalaup eins og hann hefur lengi gert og sagði þetta bragð þeirra Cruz og Kasich anga af örvæntingu.

Það gæti þó reynst þeim Cruz og Kasich erfitt að stöðva Donald Trump sem er nú þegar með töluvert forskot á þá og reiknað er með því að hann muni bæta á það forskot á þriðjudaginn. Þá er Hillary Clinton, sem líkleg þykir til að hljóta tilnefningu Demókrata gegn Bernie Sanders, farin að einbeita sér meira og meira að forsetakosningunum í nóvember.

Hún birti á dögunum auglýsingu gegn Donald Trump. Þar er orð Tump notuð gegn honum og vísað til þess að nýverið lak samtal milli kosningastjóra hans og framkvæmdanefndar Repúblikanaflokksins.

Þar sagði Paul Manafort að Trump væri í karakter og að kjósendur myndu sjá allt annan Trump fyrir forsetakosningarnar.

Manafort sagði að Trump áttaði sig á því að hann þyrfti að draga úr öfgum sínum. Hann sagði að sá karakter sem Trump væri að leika væri að þróast í þá átt sem nefndin vonaðist eftir.

Sjá einnig: Ætlar að breyta ímynd sinni.

Í auglýsingu Clinton eru rifjuð upp ummæli Trump sem þykja jafnvel öfgafull og kjósendur eru beðnir um að gleyma þeim ekki. Meðal þess sem rifjað er upp er þegar Trump sagði Mexíkóa vera nauðgara, hann vildi banna múslimum að koma til Bandaríkjana og þegar hann sagði að stuðningsmenn sínir væru svo hliðhollir að hann gæti skotið mann til bana á götu úti án þess að tapa atkvæðum.


Tengdar fréttir

Strax rýnt í næstu varaforseta

Forvali í forsetakosningum í Bandaríkjunum lýkur ekki fyrr en í júní, en fjölmiðlar eru nú þegar farnir að velta fyrir sér varaforsetaefnum flokkanna. Varaforsetaefnið verður kynnt á flokksþingi í júlí.

Hillir undir sigur hjá Clinton og Trump

Bernie Sanders fékk verri útreið í New York en fyrirfram var talið og þykir nú vart eiga möguleika lengur gegn Clinton. Donald Trump þykir sömuleiðis orðinn nokkuð öruggur með útnefningu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×