Enski boltinn

Leicester sleppur við hákarla í Meistaradeildinni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Englandsmeistarar Leicester sleppa við helstu hákarla Evrópu í riðlakeppni Meistaradeildarinnar á næsta tímabili en liðið verður í efsta styrkleikaflokki þrátt fyrir að hafa aldrei tekið þátt í keppninni áður.

Leicester varð meistari í fyrsta skipti í sögu félagsins þegar Tottenham glutraði niður tveggja marka forskoti gegn Chelsea á Brúnni í gærkvöldi eftir að komast 2-0 yfir.

Fyrirkomulagi dráttarins í riðlakeppni Meistaradeildarinnar var breytt fyrir þessa leiktíð en nú fara sigurvegarar sjö sterkustu deilda Evrópu beint í efsta styrkleikaflokk.

Leicester mun því komast hjá því að mæta liðum á borð við PSG og Juventus, sem eru orðin meistarar í Frakklandi og á Ítalíu, Bayern, sem á titilinn vísan í Þýskalandi, og svo verðandi Spánarmeisturum sem verður Barcelona, Atlético eða Real Madrid.

Sjö bestu deildarinnar samkvæmt styrkleikaröðun UEFA eru á Spáni, í Þýskalandi, á Englandi, á Ítalíu, í Portúgal, í Frakklandi og í Rússlandi. Áttunda sætið í efsta styrkleikaflokki fær svo ríkjandi sigurvegari Meistaradeildarinnar.

Það þýðir að ef Manchester City verður Evrópumeistari í maí fer liðið beint í efsta styrkleikaflokk ásamt Englandsmeisturum Leicester.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×