Enski boltinn

Leicester náði sex stiga forskoti með öruggum sigri á Etihad | Sjáðu mörkin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leicester-menn fagna fyrsta marki leiksins.
Leicester-menn fagna fyrsta marki leiksins. Vísir/Getty
Ævintýri Leicester City heldur áfram en í dag náði liðið sex stiga forystu á toppi ensku úrvalsdeildarinnar með 1-3 sigri á Manchester City á útivelli.

Mörkin úr leiknum má sjá hér að neðan.

Leicester er nú komið með 53 stig þegar aðeins 13 umferðum er ólokið. City er í 2. sætinu með 47 stig. Með sigri á Watford síðar í dag kemst Tottenham upp fyrir City í 2. sætið.

Leicester byrjaði leikinn frábærlega og strax á 3. mínútu kom Robert Huth Refunum yfir með skoti af stuttu færi eftir aukaspyrnu Riyad Mahrez.

City-menn voru miklu meira með boltann en það voru Leicester-menn sem fengu betri færi. Jamie Vardy, markahæsti leikmaður úrvalsdeildarinnar, var alltaf líklegur en Joe Hart sá við honum í dag.

Staðan var 0-1 í hálfleik en á 48. mínútu kom Mahrez gestunum tveimur mörkum yfir með frábæru marki. Leicester vann boltann á eigin vallarhelmingi og brunaði fram, Mahrez fékk boltann, lék auðveldlega á Martín Demichelis og þrumaði svo boltanum í netið.

Sex mínútum síðar fékk Fernando kjörið tækifæri til að minnka muninn fyrir City en Kasper Schmeichel varði skalla hans af stuttu færi frábærlega.

Á 60. mínútu kom Huth Leicester svo í 0-3 með sínu öðru marki. Þjóðverjinn skallaði þá hornspyrnu Christian Fuchs í netið.

Sergio Agüero minnkaði muninn í 1-3 á 87. mínútu með skalla eftir fyrirgjöf frá varamanninum Bersant Celina.

Fleiri urðu mörkin ekki og Leicester fagnaði góðum sigri, þeim fyrsta á City frá árinu 2003.

Man City 0-1 Leicester Man City 0-2 Leicester Man City 0-3 Leicester Man City 1-3 Leicester



Fleiri fréttir

Sjá meira


×