Enski boltinn

Leicester getur orðið meistari á Old Trafford en Vardy verður ekki með

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Vardy fær ekki að vera með þegar Leicester vinnur mögulega titilinn.
Vardy fær ekki að vera með þegar Leicester vinnur mögulega titilinn. vísir/getty
Eftir jafntefli Tottenham gegn West Bromwich Albion í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöldi er Leicester komið með aðra hönd og nokkra fingur til viðbótar á enska meistaratitilinn.

Refirnir þurfa aðeins þrjú stig úr síðustu þremur leikjum sínum til að vinna einn óvæntasta landstitil í sögu Evrópufótboltans, en þeir eru með sjö stiga forskot á Tottenham þegar þrjár umferðir eru eftir.

Leicester er nú þegar búið að tryggja sér sæti í Meistaradeild Evrópu á næsta ári en getur nú gert enn betur og staðið uppi sem Englandsmeistari. Leicester verður sjötta liðið sem vinnur ensku úrvalsdeildina eftir Manchester United, Blackburn, Arsenal, Chelsea og Manchester City.

Fyrsta tilraun Leicester til að vinna ensku úrvalsdeildina verður um helgina þegar liðið heimsækir sigursælasta lið úrvalsdeildarinnar, Manchester United. Leicester, sem kom upp í fyrra, getur fagnað titlinum á Old Trafford.

Leicester á eftir leiki gegn United úti, Everton heima og Chelsea á útivelli. Það yrði nú eitthvað ef fráfarandi Englandsmeistarar Chelsea myndu standa heiðursvörð þegar leikmenn Leicester ganga inn á Stamford Bridge.

Leicester verður þó án markahróksins Jamie Vardy í leiknum gegn Manchester United um helgina þar sem enska knattspyrnusambandið bætti einum leik ofan á leikbann hans sem Vardy fékk fyrir að fá rautt spjald í leik gegn West Ham 17. apríl.

Vardy fékk tvö gul spjöld í leiknum og fór sjálfkrafa í eins leiks bann fyrir rauða spjaldið en aukaleiknum var bætt við bannið vegna framkomu hans í garð dómarans Jon Moss þegar hann sýndi framherjanum rauða spjaldið.

Leicester saknaði Vardy ekki þegar liðið burstaði Swansea, 4-0, um síðustu helgi en gæti þurft á honum að halda á Old Traford þar sem Manchester United er gríðarlega sterkt. United hefur aðeins fengið á sig sjö mörk á heimavelli í vetur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×