Enski boltinn

Leicester gæti aftur orðið enskur meistari 8. maí

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það er gaman að styðja íþróttalið í Leicester þessa dagana.
Það er gaman að styðja íþróttalið í Leicester þessa dagana. Vísir/Getty
Leicester City tryggði sér enska meistaratitilinn í fótbolta á mánudagskvöldið þegar Tottenham mistókst að vinna Chelsea. Það gætu hinsvegar verið fleiri titlar á leiðinni til borgarinnar.

Leicester City hefur sjö stiga forystu á Tottenham þegar aðeins tvær umferðir eru eftir af ensku úrvalsdeildinni.

Þetta er í fyrsta sinn í sögu Leicester City sem félagið verður enskur meistari en fótboltaliðið er ekki eina íþróttalið bæjarins sem er að standa sig vel.

Körfuboltaliðið Leicester Riders er komið í úrslitaleikinn um enska meistaratitilinn og mætir Sheffield Sharks í leik um titilinn 8. maí.

Leicester Riders er deildarmeistari þar sem liðið vann 29 af 33 leikjum sínum. Liðið sló síðan Leeds og Cheshire út í úrslitakeppninni.

Leicester Riders hefur einu sinni orðið enskur meistari í körfubolta en liðið vann titilinn einnig vorið 2013.

Rob Paternostro, þjálfari körfuboltaliðsins, var á dögunum kosinn besti þjálfari tímabilsins og þeir Neil Watson og Drew Sullivan voru báðir valdir í lið ársins.

Það er eitt lið frá Leicester  í viðbót sem gæti orðið enskur meistari en rúgbý-liðið Leicester Tigers. Liðið er komið í úrslitakeppnina en er þó ekki sigurstranglegt. Það getur hinsvegar allt gerst í dag þegar íþróttafélag frá Leicester mætir til leiks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×