Viðskipti erlent

Lego orðinn stærsti leikfangaframleiðandi heims

Stefán Ó. Jónsson skrifar
The Lego Movie fékk víða frábæra dóma.
The Lego Movie fékk víða frábæra dóma. Vísir/AFP
Danski smákubbaframleiðandinn Lego er nú, í kjölfar örs vaxtar undanfarna sex mánuði, stærsta leikfangafyrirtæki heims.

Lego tilkynnti í dag að tekjur fyrirtækisins hefðu aukist um 11% á fyrstu sex mánuðum ársins frá síðasta starfsári. Sala Lego nam 2,03 milljörðum bandaríkjadala, um 240 milljarðar króna, en sala fyrirtækisins Mattel, sem er hvað helst þekkt fyrir að framleiða Barbie-brúðuna, nam 2 milljörðum dala.

Mattel hefur lengi vel verið stærsti leikfangaframleiðandi heims en dregið hefur verulega úr eftirspurn eftir hinni sígildu Barbie á þessu ári. Er það meðal annars talið vegna tregðu framleiðandans til að aðlagast breyttum tíðaranda.

Danski kubbafyrirtækið hefur hins vegar malað gull á síðustu misserum og má það að miklu leyti rekja til hinnar geisivinsælu Lego Movie sem frumsýnd var fyrr í ár. Myndin hlaut góða dóma og jók áhugann á vörum fyrirtækisins.

Fyrirtækið hefur í kjölfarið ákveðið að leggja aukna áherslu á kvikmyndaframleiðslu á næstu árum en tvær myndir eru nú þegar á teikniborðinu. Fyrirhugað er að kvikmynd byggð á Ninjago-vörum fyrirtækisins rati í kvikmyndahús á næsta ári og Lego Movie 2 árið 2017.

Þá hefur aukin eftirspurn eftir Lego-vörum í Kína haft sitt að segja um vöxt fyrirtækisins og áætla forsvarsmenn þess að það geti fjórfaldast í stærð á næstu tíu árum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×