Innlent

Leggur fram miðlunartillögu í kjaradeilu tónlistarkennara

atli ísleifsson skrifar
Frá mótmælum tónlistarkennara árið 2014.
Frá mótmælum tónlistarkennara árið 2014. Vísir/Ernir
Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari hefur lagt fram miðlunartillögu í kjaradeilu tónlistarkennara sem hafa verið samningslausir frá haustdögum 2015.

Í yfirlýsingu frá ríkissáttasemjara segir að haldnir hafi verið tuttugu árangurslausir fundir í málinu og telji embættið að frekari sáttaumleitanir muni ekki bera árangur. Samningsaðilar eru Kennarasamband Íslands, vegna Félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum (FT), og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

„Samkomulag hefur náðst á milli samningsaðila um öll meginatriði, að undanskildu því að hvaða leyti samningslaust tímabil er bætt og gildistíma samningsins. Því hefur ríkissáttasemjari lagt fram miðlunartillögu til lausnar deilunni sem byggir á fyrirliggjandi samkomulagsdrögum auk þess sem tekið er á útistandandi ágreiningi.

Félagsmenn í FT annars vegar og stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga hins vegar greiða atkvæði um miðlunartillöguna.

Miðlunartillagan verður send til félagsmanna FT og stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga á rafrænu formi og atkvæði verða greidd rafrænt.

Atkvæðagreiðslan hefst svo skjótt sem verða má og henni lýkur kl. 13:00 föstudaginn 10. febrúar 2017. Ríkissáttasemjari er viðstaddur þegar niðurstaða atkvæðagreiðslunnar er kunngjörð ásamt einum fulltrúa frá hvorum aðila.

Miðlunartillagan verður ekki birt öðrum en þeim sem hlut eiga að máli fyrr en atkvæði hafa verið greidd um hana, sbr. 1. mgr. 29. gr. l. 80/1938 og er innihald hennar háð trúnaði þar til niðurstaða liggur fyrir,“ segir í yfirlýsingunni.

Kjarasamningur tónlistarkennara rann út þann 31. október 2015 og var málinu vísað til ríkissáttasemjara þann 27. apríl 2016.


Tengdar fréttir

Tónlistarkennarar fá betri laun sem barþjónar en í skólunum

Tónlistarkennarar vilja að störf þeirra í tónlistarskólum verði metin til jafns við störf kennara í annars konar skólum. Telja sig vera með allt að 15 prósentum lægri laun en grunnskólakennarar. Tónlistakennararnir eru farnir að hugsa s




Fleiri fréttir

Sjá meira


×