Innlent

Leggja til að 67 ára og eldri fái frítt í sund

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Sund og sundleikfimi er vinsæl heilsurækt meðal eldri borgara.
Sund og sundleikfimi er vinsæl heilsurækt meðal eldri borgara. FRÉTTABLAÐIÐ/GVA
Í Reykjavík fá aldraðir frítt í sund þegar þeir eru orðnir 70 ára. Í nágrannasveitarfélögunum fá 67 ára og eldri að synda gjaldfrítt. Ekki er skilyrði um búsetu í viðkomandi sveitarfélögum.

Starfshópur um heilsueflingu aldraðra í Reykjavík leggur meðal annars til í skýrslu sinni að sundferðir verði gjaldfrjálsar frá og með 67 ára aldri.



Það er vitað að stór hluti þessa hóps er á meðal ríkustu Íslendinganna og er almennt séð ekki illa stæður. Ilmur Kristjánsdóttir, formaður velferðarráðs Reykjavíkur
Í skriflegu svari til Fréttablaðsins segir Ilmur Kristjánsdóttir, formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar, að um hafi verið að ræða hluta af hagræðingaraðgerðum eftir hrun þegar ákveðið var að breyta aldursviðmiðum vegna greiðslu í sund. „Það kostar 15-20 milljónir að niðurgreiða fyrir þennan hóp. Það er vitað að stór hluti þessa hóps er á meðal ríkustu Íslendinganna og er almennt séð ekki illa stæður.“

Ilmur getur þess að margir þurfi á fjárhagsaðstoð að halda og hlutfallslega færri í hópi aldraðra en í öðrum aldurshópum. „Miðað við fjárhagsstöðu væri réttara að niðurgreiða sund fyrir hópinn 21-25 ára. Við verðum að einbeita okkur að hinum verst settu óháð aldri."

Haukur Ingibergsson formaður Landssambands eldri borgara
Haukur Ingibergsson, formaður Landssambands eldri borgara, segir ekki vitað til þess að 67-70 ára Reykvíkingar séu sérstakur hópur auðkýfinga sem réttlæti að þeir borgi í sund á meðan jafnaldrar þeirra í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu syndi gjaldfrítt.

„Félag eldri borgara í Reykjavík hefur til dæmis þráfaldlega minnt á viðvarandi fátækt hjá hluta af hópi eldri Reykvíkinga og gjaldtaka á sundstöðum í borginni, umfram það sem er í nágrannasveitarfélögum, léttir þessu fólki ekki lífið. Sund er ein vinsælasta heilsurækt eldri borgara og sundlaugar mikilvægar til að rjúfa félagslega einangrun þar sem maður hittir mann. Og eldri Reykvíkinga munar um að greiða fyrir sund til sjötugs á meðan sund í næstu sveitarfélögum er gjaldfrítt fyrir 67 ára og eldri. Þetta minnir okkur á að fjárhagsvandi sveitar­félaga bitnar á endanum á íbúum því sveitarfélög hafa fá önnur úrræði þegar harðnar á dalnum en að skrapa saman tekjur af eignum sínum og rekstri og draga úr þjónustu.“

Guðrún Ágústsdóttir formaður öldungaráðs Reykjavíkur
Guðrún Ágústsdóttir, formaður öldungaráðs Reykjavíkur, segir afar mikilvægt að allir komist í sund óháð efnahag. „Öldungaráð og stofnanir borgarinnar munu taka afstöðu til tillagna starfshópsins um heilsueflingu en Ilmi ber auðvitað, sem formanni velferðarráðs, að hugsa um hópinn sem hefur það verst.“

Ilmur bætir því við að að sjálsögðu verði tekið tillit til heilsueflingarskýrslunnar sem er nýkomin út og tillögurnar skoðaðar í samráði við öldungaráð.

Aldraðir sem hafa áhuga á að renna sér á skíðum í Bláfjöllum og Skálafelli þurfa ekkert að greiða eftir að þeir hafa náð 66 ára aldri. Guðrún kveðst fagna því.

Aðgangur að söfnum Reykjavíkurborgar er gjaldfrjáls eftir 70 ára aldur en í nágrannasveitarfélögunum er miðað við 67 ára. Sömu viðmið gilda um útgáfu bókasafnsskírteina.

Til að eldri borgarar geti keypt sér árskort í strætó á 19.900 krónur þurfa þeir að vera orðnir 70 ára.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×