Lífið

Legg áherslu á að allt sé ekta

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
 Einn af kostunum við súpuna er að suðan á henni tekur bara rúmt kortér. Emilia segir Íslendinga svolítið hrædda við sterka bragðið í byrjun en svo vilji þeir meira og meira.
Einn af kostunum við súpuna er að suðan á henni tekur bara rúmt kortér. Emilia segir Íslendinga svolítið hrædda við sterka bragðið í byrjun en svo vilji þeir meira og meira. Vísir/Stefán
Taílendingar borða súpu með öllum mat. Þeir hugsa ekki um súpu sem forrétt eða eftirmat heldur borða marga rétti í einu, þar á meðal súpu.“ Þetta segir Emilia Kanjanapron Gíslason, matreiðslumaður á Bangkok við Smiðjuveg 11 í Kópavogi.

Hún kveðst nota mikið krydd og kappkosta að hafa matinn hollan og góðan.

„Ég legg líka áherslu á að allt sé ekta,“ segir hún og kveðst kaupa taílenskt krydd en ferska hráefnið sé íslenskt og hún sé ánægð með það. Bendir á að taílenskt krydd fáist meðal annars við Hlemm og í Kolaportinu.

Emilia segir Íslendinga svolítið hrædda við sterka bragðið af súpunni til að byrja með. „Ég hvet þá til að borða lítið fyrst en svo vilja þeir alltaf meira og meira,“ segir hún glaðlega.

Taílenska súpan Gang some

400 g rækjur

120 g Gang some-mauk

100 g kínversk radísa

100 g strengjabaunir

100 g gulrætur

50 g spergilkál

1 l vatn

50 g tómatmauk

½ msk. palm-sykur

3-4 msk. fiskisósa

2 msk. tamarind-safi

Hellið vatninu í pott og látið suðuna koma upp. Setjið þá Gang some-maukið, palm-sykurinn, tamarind-safann, fiskisósuna og tómatmaukið út í og látið það leysast upp.

Sjóðið í fimm mínútur við háan hita. Bætið svo við strengjabaunum, spergilkáli, kínverskri radísu og síðast rækjum, sjóðið á háum hita í sjö til tíu mínútur og þá er súpan tilbúin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×