Lífið

Leðurjakki Swayze úr Dirty Dancing seldur á morðfjár

Anton Egilsson skrifar
Patrick Swayze í leðurjakkanum fræga sem hann klæddist í kvikmyndinni Dirty Dancing.
Patrick Swayze í leðurjakkanum fræga sem hann klæddist í kvikmyndinni Dirty Dancing.
Leðurjakki sem bandaríski leikarinn Patrick Swayze klæddist í hinni goðsagnakenndu kvikmynd Dirty Dancing seldist á uppboði á dögunum fyrir 48 þúsund Bandaríkjadollara eða tæpar sjö milljónir íslenskra króna.

Ýmsir persónulegir munir frá Swayze voru boðnir upp á uppboðinu sem ekkja hans, Lisa Niemi, stóð fyrir. Leðurjakkanum umrædda klæddist Swayze einmitt þegar hann sagði eina ódauðlegustu setningu kvikmyndasögunnar: „Don’t put baby in a corner”.

Samkvæmt frétt Sky um málið sagðist Niemi hafa upplifað blendnar tilfinningar við það að selja persónulegar eigur fyrrum eiginmanns síns. Niemi sem nú er gift skartgripasalanum Albert DePrisco sagðist hafa tekið þá ákvörðun að halda uppboðið eftir að hún fluttist af búgarði þeirra Swayze í Nýju Mexíkó í Bandaríkjunum en þar bjuggu þau saman í um 30 ár.  

Swayze lést úr krabbameini í briskirtli í september árið 2009 eftir rúmlega árslanga baráttu við meinið. Á ferli sínum lék hann í fjölda kvikmynda en meðal þekktustu þeirra þekktustu að undanskildri Dirty Dancing eru kvikmyndirnar Ghost, Donnie Darko og Point Break.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×