Körfubolti

Lebron James og félagar í Cleveland í beinni á Stöð 2 Sport í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lebron James.
Lebron James. Vísir/Getty
Cleveland Cavaliers tapaði óvænt síðustu nótt þegar liðið var á heimavelli á móti New York Knicks. Þetta var fyrsti leikur liðsins í NBA-deildarkeppninni eftir að Lebron James kom aftur til liðsins.

Lebron og félagar hafa því ýmislegt að sýna og sanna þegar þeir heimsækja Chicago Bulls í kvöld enda gátu ekki margir séð það fyrir sér að Cleveland-liðið myndi byrja tímabilið á tveimur tapleikjum.

Leikurinn í Chicago í kvöld verður í beinni á Stöð 2 Sport og hefst útsendingin á miðnætti.

Lebron James klikkaði á 8 af fyrstu 9 skotum sínum á móti New York auk þess að tapa 8 boltum í leiknum.  Hann átti því vægast sagt slakan dag.

„Ég gerði ekki mikið í þessum leik. Þetta var sérstakt kvöld og ég er ánægður með að þetta fór vel fram en ég er líka feginn að þetta er búið," sagði Lebron James eftir leikinn.

Chicago Bulls burstaði New York Knicks í sínum fyrsta leik og það verður því fróðlegt að sjá hvort að Cleveland Cavaliers eigi einhverja möguleika í kvöld á móti Derrick Rose, Pau Gasol og félögum þeirra í Bulls.

Lebron James er ekki þekktur fyrir að spila tvo slaka leiki í röð og það er allt eins vona á sýningu frá kappanum á Stöð 2 Sport í kvöld.





NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×