Körfubolti

LeBron James gefur safni 283 milljónir króna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James.
LeBron James. Vísir/Getty
NBA-leikmaðurinn LeBron James ætlar að sjá til þess að hnefaleikakappinn Muhammad Ali fá áfram veglegan sess í Safni Smithsonian í Washington um sögu og menningu blökkumanna í Bandaríkjunum eða National Museum of African American History and Culture.

LeBron James ætlar að leggja til 2,5 milljónir dollara, 283 milljónir íslenskra króna, til uppsetningu á sýningunni „Muhammad Ali: A Force for Change“ sem verður sett upp hjá Smithsonian.

„Muhammad Ali er hornsteinninn hjá mér sem íþróttamanni vegna þessa sem hann stóð fyrir og þá ekki bara inn í hringnum heldur utan hans líka,“ sagði LeBron James við USA Today Sports.

LeBron James leggur til peninginn ásamt viðskiptafélaga sínum Maverick Carter og góðgerðastofnun sinni.

„Þessi stuðningur hans mun hjálpa okkur að halda sögu Muhammad Ali  á lofti og sýna um leið íþróttafólkinu okkar hversu mikilvægt það ef fyrir okkur að berjast fyrir því sem okkur finnst vera rétt,“ sagði Lonnie Bunch, yfirmaður og stofnandi safnsins.

LeBron James er ekki sá eini til að leggja til stóra upphæð því áður hafði Michael Jordan gefið fimm milljón dollara þegar sýningin opnaði í september.

Muhammad Ali lést í júní síðastliðnum þá 74 ára að aldri. Hann var einn merkasti íþróttamaður tuttugustu aldarinnar og margfaldur heimsmeistari.

„LeBron sýnir með þessu ótrúlegt örlæti. Þessi sýning mun sjá til þess, að börn sem heimsækja Smithsonian, fá nú tækifæri til að læra um starf Muhammad utan hringsins, sérstaklega þegar kemur að mannúðar- og réttindamálum. Ef Muhammad væri á lífi í dag þá þætti honum sér vera sýndur mikinn heiður með þessu,“ sagði eftirlifandi eiginkona Muhammad Ali, Lonnie Ali, um gjöf LeBron James.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×