Körfubolti

LeBron James: Færri mínútur munu ekki hafa áhrif

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James með þeim Kevin Love og Kyrie Irving.
LeBron James með þeim Kevin Love og Kyrie Irving. Vísir/Getty
Tyronn Lue, þjálfari Cleveland Cavaliers, ætlar að spara stórstjörnu sína LeBron James í NBA-deildinni í körfubolta í vetur en leikmaðurinn sjálfur hefur ekki áhyggjur að það spilli fyrir möguleikum hans að vera valinn besti leikmaður NBA-deildarinnar í fimmta sinn.

LeBron James var spurður út í þetta af blaðamanni ESPN og notaði James nafn Stephen Curry í rökstuðningi sínum fyrir af hverju færri mínútur ættu ekki að hafa áhrif á möguleika hans.

„Nei það mun ekki hafa áhrif af því að Steph spilaði 31 mínútu í leik og hann var kosinn bestur,“ sagði LeBron James. Stephen Curry lék reyndar 32,7 mínútur í leik 2014-15 og 34,2 mínútur í leik í fyrra en það breytir ekki því að hann spilaði mun minna en LeBron er vanur.

LeBron James hefur endað í þriðja sæti í kjörinu undanfarin tvö tímabil en hann hefur fjórum sinnum verið kosinn mikilvægasti leikmaður deildarinnar. James deilir nú fjórða sætinu með Wilt Chamberlain á þeim lista.

Það eru bara Kareem Abdul-Jabbar (sex), Michael Jordan (fimm) og Bill Russell (fimm) sem hafa verið oftar kosnir mikilvægasti leikmaður NBA-deildarinnar en James.

„Ég hef aldrei sett mér það markmið þegar ég fer inn í tímabil að ég ætli mér að vera kosinn mikilvægastur. Ég fer inn í tímabilið með það markmið að vera mikilvægasti leikmaður míns liðs. Það hefur skilað mér fjórum slíkum verðlaunum. Ég hef alltaf, með örfáum undantekningum, verið til staðar fyrir mitt lið á báðum endum vallarins," sagði LeBron James.

„Það hefur verið mikill heiður fyrir mig að vera kosinn fjórum sinnum og það er virðingarvottur fyrir það sem ég hef afrekað á mínum ferli. Það sem er þó enn mikilvægara er að ég hef verið til staðar fyrir liðsfélagana mína. Það væri frábært ef gæti unnið mér inn önnur slík verðlaun með því að gera það sem ég á að gera. Við verðum líka að vinna til þess að ég eigi möguleika. Það skiptir litlu hvaða tölum þú skilar ef liðinu er ekki að ganga vel. Mér hefur tekist að vera í farsælum liðum hingað til,“ sagði James.

NBA-deildin í körfubolta hefst á ný aðra nótt en fyrsti leikur Cleveland Cavaliers er á móti New York Knicks sem er opnunarleikur NBA-tímabilsins.

Vísir/Getty
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×