Körfubolti

LeBron afgreiddi toppliðið | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
LeBron James var óstöðvandi.
LeBron James var óstöðvandi. vísir/epa
Cleveland Cavaliers er á miklum skriði í NBA-deildinni í körfubolta þessar vikurnar, en liðið vann 18. leikinn af síðustu 20 í nótt þegar það skellti toppliði deildarinnar, Golden State, 110-99, á heimavelli í nótt.

LeBron James fór á kostum í leiknum og skoraði 42 stig auk þess se hann tók 11 fráköst, gaf 5 stoðsendingar og stal 3 boltum. Kyrie Irving bætti við 24 stigum og Kevin Love skoraði 16 stig og tók 8 fráköst.

Stephen Curry, sem hefur að öðrum ólöstuðum verið besti leikmaður deildarinnar í vetur, náði sér aldrei almennilega á strik en skoraði þó 18 stig og gaf 6 stoðsendingar.

Cleveland-liðið er í þriðja sæti austurdeiildarinnar eftir sigurinn í nótt með 36 sigra og 22 töp rétt eins og Chicago, en það nálgast nú Toronto í öðru sætinu.

LeBron James í ham:


Í hinum leik næturinnar vann Phoenix Suns mikilvægan sigur á Oklahoma City Thunder, 117-113, en þessi lið eru í harðri baráttu ásamt New Orleans um síðustu sætin í úrslitakeppninni.

Allir byrjunarliðsmenn Phoenix áttu flottan leik en það skoruðu allir 12 stig eða meira. Stigahæstur var kraftframherjinn Markieff Morris sem skoraði 29 stig og tók 11 fráköst.

Russell Westbrook, leikstjórnandi OKC, átti frábæran leik og hlóð í þrennu með 39 stigum, 14 fráköstum og 11 stoðsendingum. Það dugði þó ekki til fyrir Durant-lausa Thunder-menn.

OKC er í áttunda sæti vestursins með 32 sigra og 25 töp, en New Orleans er 2,5 sigrum fyrir aftan og Phoenix 3,5 sigrum á eftir þrumunni.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×