Erlent

Le Pen í Rúss­landi: Vill af­létta við­skipta­þvingununum

Atli Ísleifsson skrifar
Marine Le Pen og Vladimír Pútín í morgun.
Marine Le Pen og Vladimír Pútín í morgun. Vísir/AFP
Marine Le Pen, leiðtogi frönsku Þjóðfylkingarinnar, segist vilja aflétta viðskiptaþvingunum Vesturlanda gagnvart Rússum. Sagði hún þvingarnir ekki þjóna tilgangi sínum. Le Pen sagði þetta í ræðu í Dúmunni, rússneska þinginu, í morgun.

Le Pen er nú í Moskvu þar sem hún fundaði meðal annars með Vladimír Pútín Rússlandsforseta.

Á fréttamannafundi varði Pútin fundinn og lagði áherslu á að hann vildi ekki hafa áhrif á gang frönsku forsetakosninganna sem fram fara í vor. „Við teljum okkur þó hafa rétt til að ræða við fulltrúa allra stjórnmálahreyfinga í landinu,“ sagði Pútín.

Pútín sagði Le Pen vera málsvara þátta sem nytu sífellt meiri vinsælda í evrópskum stjórnmálum, en Le Pen leggur meðal annars áherslu á að stöðva straum innflytjenda til Frakklands.

Skoðanakannanir benda til að Le Pen muni fá flest atkvæði í fyrri umferð forsetakosninganna, en þurfa að lúta í lægra haldi í þeirri síðari.

Aðildarríki Evrópusambandsins, ríki í Norður-Ameríku og fleiri ákváðu að beita Rússum viðskiptaþvinganir eftir að Rússar innlimuðu Krímskaga árið 2014.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×