Innlent

Laxastofn frá Noregi sagður vera íslenskur

Sveinn Arnarsson skrifar
Fiskeldi Arnarlax á Bíldudal áformar að framleiða 10 þúsund tonn á þessu ári.
Fiskeldi Arnarlax á Bíldudal áformar að framleiða 10 þúsund tonn á þessu ári. vísir/pjetur
Markaðs- og kynningarstjóri Hreggnasa segir ótækt að laxeldisfyrirtæki auglýsi og markaðssetji afurð sína sem íslenskan lax þar sem hann sé ekki af íslenskum stofni heldur norskum. Forstjóri Arnarlax telur hins vegar um íslenska afurð að ræða.

„Það er til vara sem heitir íslenskur lax, vara sem markaðssett hefur verið erlendis í áratugi með þeirri ímynd að þar fari hrein afurð, villt úr íslenskri náttúru,“ segir Haraldur Eiríksson, markaðsstjóri Hreggnasa, sem selur veiðileyfi í íslenskar laxveiðiár til einstaklinga um allan heim.

„Nú ber svo við að hingað er komið norskt sjókvíaeldisfyrirtæki, elur upp norskan lax í sjókvíum og selur hann og markaðssetur sem íslenskan. Meira að segja er íslenskur fáni settur á vöruna í Asíu og á Indlandi,“ bætir Haraldur við.

Er Haraldur hér að vitna til fyrirtækisins Arnarlax, sem rekur laxeldi frá Bíldudal og fer framleiðslan fram í þremur fjörðum; Patreksfirði, Arnarfirði og Tálknafirði.

Þessu er Kristian Matthiasson, forstjóri Arnarlax, ósammála.

„Þetta er í grunninn lax sem var fluttur til Íslands fyrir tveimur áratugum. Við kaupum hann frá innlendu fyrirtæki og köllum hann íslenskan lax. Þeir sem eru síðan á móti laxeldinu segja að hann sé norskur lax,“ segir Kristian.

„Þetta er alveg eins með okkur Íslendingana sem höfum verið hér í 20 ár.“

Fyrirtækið áformar að slátra um tíu þúsund tonnum af laxi í ár. „Við verðum að átta okkur á að hér er um að ræða kynbættan lax frá fyrirtæki hér á landi. Því er ekki rétt að segja að þetta sé ekki íslenskur lax.“

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×