Viðskipti innlent

Laxabitaverksmiðjunni skipað upp á Bíldudal

Kristján Már Unnarsson skrifar
Flutningaskip er komið til Bíldudals með fiskréttaverksmiðju frá Noregi sem verður meginþáttur 150 nýrra starfa Arnarlax á sunnanverðum Vestfjörðum. Um borð í flutningaskipinu Hauki eru 200 tonn af tækjum og vélarhlutum. Aðaleigandi Arnarlax, Bílddælingurinn Matthías Garðarsson, er að flytja laxabitaverksmiðju, sem hann byggði upp í Norður-Noregi, í heilu lagi inn í sitt gamla byggðarlag við Arnarfjörð.

Á Hálogalandi í Noregi störfuðu eitthundrað manns í verksmiðjunni við að fullvinna laxabita í neytendaumbúðir fyrir Evrópumarkað og það sama er ætlunin að gera á Bíldudal. Framundan er að reisa nýtt verksmiðjuhús á uppfyllingu í útjaðri þorpsins en Arnarlax er þegar kominn með fyrstu kynslóð laxa í eldi í kvíum á Arnarfirði.

Smærri einingar hífðar upp í fiskkörum úr flutningaskipinu Hauki.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Matthías segir að fyrirtækið sé þegar komið með leyfi fyrir 3.000 tonna laxeldi en beðið sé eftir leyfi fyrir 10.000 tonnum, sem er forsendan fyrir hráefnisöflun í matvælaframleiðsluna. Ekki sé ráðlegt að byggja nýja verksmiðju fyrr en leyfið sé í höfn en hann vonast til að það fáist í kringum næstu áramót. Framkvæmdir á nýju lóðinni geti þá farið á fullt í vor.

Í viðtali í fréttum Stöðvar 2 segir Matthías að fáist leyfi fyrir 10.000 tonna laxeldi þýði það 150 störf hjá Arnarlaxi; í verksmiðjunni, við sjókvíaeldið og við seiðaeldisstöð fyrirtækisins. Hann var sjálfur á lyftaranum að aka vélarhlutunum inn í hús þar sem þeim verður komið fyrir til bráðabirgða en hjá Arnarlaxi starfa þegar milli 20 og 25 manns.

„Það er auðséð að okkar innkoma hér á Bíldudal hefur haft feiknarlega mikið að segja. Það er búið að flytja hingað hellingur af fólki í sumar, fjölskyldur, og ungt fólk komið í skólann. Það er tekið eftir þessu. Þannig að hér er mikil bjartsýni," segir Matthías.



Tengdar fréttir

Laxeldi í sjó verði stöðvað

Orri Vigfússon, helsti baráttumaður fyrir verndun villtra laxastofna, vill að stjórnvöld stöðvi nú þegar allt laxeldi í sjó. Hann óttast umhverfisslys. Laxeldi í sjókvíum stefnir í að verða umfangsmikil atvinnugrein, eins og fram kom í frétt Stöðvar 2 úr Arnarfirði í fyrradag. Orri Vigfússon vill að stjórnvöld grípi nú þegar í taumana. "Mér finnst að það eigi að stoppa þetta strax, já," segir Orri í viðtali í fréttum Stöðvar 2.

Matthías mættur til að skapa 150 störf á Bíldudal

Laxeldi stefnir í að valda byltingu á Vestfjörðum á næstu árum og skapa mörghundruð störf. Matthías Garðarsson, fiskeldisfrömuður í Noregi, kom til landsins fyrir helgi til að byggja upp 150 manna fyrirtæki á Bíldudal.

Fiskeldismenn kalla eftir vegabótum á Vestfjörðum

Milljarðauppbygging fiskeldis á Vestfjörðum kallar á stórfelldar vegabætur strax, segir framkvæmdastjóri Arnarlax. Vegirnir á Vestfjörðum séu einfaldlega ónýtir. Norskt fiskeldis- og matvinnslufyrirtæki er að flytja alla starfsemi sína frá Norður-Noregi til sunnaverðra Vestfjarða og hyggst byggja þar seiðaeldisstöð, laxasláturhús og fiskréttaverksmiðju í nafni Arnarlax. Náttúrulegar aðstæður í Arnarfirði þykja ákjósanlegar en annað gildir um innviði eins og vegi sem ráðamenn félagsins segja að verði að bæta. "Þetta er mjög einfalt mál. Vegirnir eru ónýtir.

Laxeldi á Vestfjörðum eins og ígildi álvers

Uppbygging laxeldis stefnir í að hafa sambærileg og jafnvel meiri áhrif á sunnanverðum Vestfjörðum og stóriðjuframkvæmdirnar höfðu fyrir Austurland, segir bæjarstjóri Vesturbyggðar.

Norsk matvælaiðja flytur til Bíldudals

Norskt fiskeldis- og matvinnslufyrirtæki hefur ákveðið að flytja alla starfsemi sína til Vestfjarða og reisa fiskréttaverksmiðju á Bíldudal en með því skapast 130 ný störf. Framkvæmdir hefjast strax í sumar og verður þetta ein stærsta erlenda fjárfesting í sögu fjórðungsins. Flugvél Flugfélagsins Ernis lenti á Bíldudalsflugvelli í dag með 350 þúsund laxahrogn og það þótti hæfa að Viilborg Jónsdóttir ljósmóðir á Bíldudal tæki á móti þessari fyrstu kynslóð væntanlegra eldislaxa sem verða grunnur mikillar uppbyggingar á vegum Arnarlax.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×