Erlent

Lavrov: Nýtt vopnahlé tekur gildi í Úkraínu eftir helgi

atli ísleifsson skrifar
Sergei Lavrov er utanríkisráðherra Rússlands.
Sergei Lavrov er utanríkisráðherra Rússlands. Vísir/afp
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, segir að nýtt vopnahlé taki gildi milli stríðandi fylkinga í austurhluta Úkraínu á mánudag. „Í þetta skiptið má það ekki mistakast,“ segir Lavrov.

Lavrov lét orðin falla að loknum fundi með starfsbræðrum sínum frá Úkraínu, Þýskalandi og Frakklandi á öryggisráðstefnunni í München í dag.

Úkraínski utanríkisráðherrann Pavlo Klimkin hefur enn ekki staðfest fréttirnar, en að fundi loknum lýsti hann yfir óánægju með hve litlu hafi verið áorkað á fundinum.

Átök hafa að undanförnu blossað upp á ný milli úkraínska stjórnarhersins og aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu.

Að sögn Reuters felst samkomulagið helst í því að stjórnvöld í ríkjunum ætli að beita áhrifum sínum á stríðandi fylkingar þannig að átökin hætti.

Friðarsamkomulag var undirritað í Minsk í febrúar 2015 sem fólst meðal annars í því að færa skyldi þungavopn frá víglínunni og að sjálfsstjórn héraða í austurhluta Úkraínu skyldi aukin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×