Innlent

Laus úr gæsluvarðhaldi

Stefán Árni Pálsson skrifar
Frá Vogum á Vatnsleysuströnd.
Frá Vogum á Vatnsleysuströnd. visir/gva
Maður sem grunaður er um aðild að grófri líkamsárás og frelsissviptingu þann 6. ágúst síðastliðinn í Vogum á Vatnsleysuströnd hefur verið látinn laus úr gæsluvarðhaldi en þetta kemur fram í dómi Hæstaréttar.

Héraðsdómur og Hæstiréttur hafa því hafnað kröfu lögreglustjóra um áframhaldandi gæsluvarðhald yfir manninum.

„Að virtum gögnum málsins verður fallist á það með héraðsdómi að sóknaraðili hafi ekki leitt í ljós að fullnægt sé skilyrðum til að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008,“ segir í dómi Hæstaréttar.

Fram kemur c. lið 95. grein laganna; „Ætla megi að hann muni halda áfram brotum meðan máli hans er ekki lokið eða rökstuddur grunur leiki á að hann hafi rofið í verulegum atriðum skilyrði sem honum hafa verið sett í skilorðsbundnum dómi“.

Þrjú voru upphaflega úrskurðuð í gæsluvarðhald vegna málsins til 27. ágúst en ákæruvaldið hafði farið fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir einum þeirra. 



Átján ára piltur mun hafa orðið fyrir grófri líkamsárás í heimahúsi í Vogum á Vatnsleysuströnd. Ákærðu eru sögð hafa haldið fórnarlambi sínu í sex til átta klukkustundir á meðan þau gengu harkalega í skrokk á honum. Brot þeirra eru talin varða fangelsisrefsingu allt að 16 ára fangelsi.

Í greinargerð lögreglustjóra segir að pilturinn hafi komið á lögreglustöðina í Grafarholti og tilkynnt lögreglu að hann hafi orðið fyrir líkamsárás og verið í svo mikilli geðshræringu að hann hafi verið óskýrsluhæfur að mati lögreglu.

Kvaðst hann hafa verið tekinn og farið með hann út á land þar sem hann hafi verið pyntaður og honum hótað.

Þá hafi lögreglan flutt piltinn á slysadeild þar sem læknir hafi tekið á móti honum. Að sögn vakthafandi læknis hafði pilturinn þar sömu sögu að segja, hann kvað þá hafa kýlt hann, sparkað í hann, notað rafbyssu, bitið hann, hann neyddur til að drekka smjörsýru og látinn sleikja frunsu á öðrum manni.

Pilturinn hafi verið með litla rauða bletti á líkamanum sem að sögn læknis geti komið saman við frásögn hans um að beitt hafi verið rafbyssu. Þá hafi hann verið með marblett við vinstra auga, roða yfir andliti, rauða dökka rák á hálsi og marga blóðbletti. Þá hafi hann einnig verið með margar rauðar rákir víða um bakið eftir högg eða núning.


Tengdar fréttir

Látinn sleikja frunsu og drekka smjörsýru

Pilturinn sem var sviptur frelsi sínu í Vogum á Vatnsleysuströnd var í haldi ræningja sinna í næstum 8 klukkustundir. Meint brot þeirra eru talin varða fangelsisrefsingu í allt að 16 ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×