Erlent

Launmorðingi náðaður í Suður-Afríku

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Eugene De Kock.
Eugene De Kock. Vísir/AP
Einn alræmdasti manndrápari aðskilnaðarstjórnar hvíta minnihlutans í Suður-Afríku hefur verið náðaður, eftir að hafa afplánað 20 ár af níðþungum fangelsisdómi.

Árið 1996 var hann dæmdur í tvöfalt lífstíðarfangelsi og 212 ár til viðbótar fyrir hlutdeild sína í morðum og misþyrmingum á árunum frá 1983 fram að endalokum aðskilnaðarstefnunnar rúmlega áratug síðar.

Sjálfur játaði De Kock á sig meira en hundrað morð, pyntingar og önnur óhæfuverk, en hefur í fangelsinu haft samband við sum fórnarlamba sinna og leitað eftir fyrirgefningu.

Hann var yfirmaður Vlakplaas-deildar suður-afrísku lögreglunnar, sem gerði út sveitir manna til þess að hafa uppi á andstæðingum aðskilnaðarstefnunnar og pynta þá eða drepa.

„Ég hef ákveðið að náða de Kock í þágu þjóðaruppbyggingar og sátta,“ sagði Michael Masutha dómsmálaráðherra í gær. Hann sagði að de Kock hafi aðstoðað yfirvöld við að hafa uppi á stjórnarandstæðingum sem hurfu á tímum aðskilnaðarstefnunnar.

Á síðasta ári hafnaði Masutha ósk de Kocks um náðun, og sagði þá að ekki hafi verið rætt við fjölskyldur fórnarlamba hans. „Þessu fylgja blendnar tilfinningar, en við í Suður-Afríku höfum vanist því,“ sagði Eddie Makue í viðtali við AP-fréttastofuna. Makue starfaði hjá kirkjuráði Suður-Afríku þegar de Kock sprengdi höfuðstöðvar þess árið 1988. Nítján manns særðust.

Makue situr nú á suðurafríska þjóðþinginu og sagðist sætta sig við ákvörðun dómsmálaráðherrans. Hann sagðist þó enn eiga erfitt með að sætta sig við það tjón sem fangar de Kocks og félaga hans urðu fyrir.

„Við höfum séð hvílíkum hörmungum þeir urðu fyrir og eigum erfitt með að skilja að hann hafi sloppið með þetta,“ segir Makue.

Aðskilnaðarstjórn hvíta minnihlutans lét af völdum árið 1994 eftir nærri hálfrar aldar harðstjórn. Andófshreyfing svarta meirihlutans, Afríska þjóðarráðið, vann yfirburðasigur í kosningum árið 1994 og hefur stjórnað landinu síðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×