Innlent

Launahækkun bæjarstjórans 18 prósent en ekki 31 prósent

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Rósa Guðbjartsdóttir segir tekið tillit til að nýr bæjarstjóri muni eins og kjörnir fulltrúar sitja fundi í ráðum.
Rósa Guðbjartsdóttir segir tekið tillit til að nýr bæjarstjóri muni eins og kjörnir fulltrúar sitja fundi í ráðum. Fréttablaðið/Daníel
Rósa Guðbjartsdóttir, formaður bæjarráðs í Hafnarfirði, segir ekki rétt að laun nýráðins bæjarstjóra verði 31,5 prósentum hærri en laun forverans eins og fulltrúar minnihlutans bókuðu í bæjarráði á fimmtudag.

Rósa segir hið rétta að heildarlaun bæjarstjóra fari úr 1.250 þúsund krónum í 1.480 þúsund krónur. Samkvæmt því er hækkunin 18,4 prósent en ekki 31,5 prósent.

„Þess ber að geta að eftir hrun voru einstakir liðir í launasamsetningu bæjarstjóra í Hafnarfirði lækkaðir umtalsvert og hefur lítið verið breytt til baka fyrr en nú,“ útskýrir Rósa.

Þá gagnrýnir Rósa oddvita Samfylkingarinnar, Gunnar Axel Axelsson, sem kvaðst hafa sagt sig úr valnefnd vegna ráðningar bæjarstjóra. Segir hann að fulltrúar meirihluta Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar hefðu ákveðið hver yrði ráðinn áður en formlegt mat hefði verið lagt á umsækjendur.

„Fulltrúi minnihlutans tók fullan þátt í öllum undirbúningi ráðningarferilsins, meðal annars í viðtölum við umsækjendur, og gerði engar athugasemdir við feril málsins. Og er því leitt að hann kjósi að láta að því liggja að ekki hafi verið staðið faglega að verki þegar lokaákvörðun var tekin,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×