Innlent

Laun verkafólks 30 prósent lægri en á öðrum Norðurlöndum

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/vilhelm
Munurinn á dagvinnulaunum á Íslandi og hinum Norðurlöndunum er mun minni meðal tekjuhærri hópanna en hjá tekjulægri hópunum. Þannig eru dagvinnulaun stjórnenda á Íslandi í raun fimm prósent hærri en að meðaltali hjá öðrum Norðurlöndum. Þetta kemur fram í samantekt ASÍ.

Í samantektinni segir að hluta af þessum mun megi skýra með minni tekjujöfnunaráhrifum íslenska skattkerfisins, þar sem hátekjur hér á landi eru skattlagðar mun minna en hjá öðrum Norðurlöndunum. Því verði hlutfallslega meira eftir í buddu hátekjuhópa hér á landi.

Þegar litið er á dagvinnulaun sérfræðinga eru þau um þrjú til fimm prósent lægri hér á landi en í hinum löndunum. Hæst eru laun sérfræðinga í Noregi en lægst í Svíþjóð.

Mestur munur á dagvinnulaunum er gagnvart verkafólki og þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólki. Í samantektinni kemur fram að hér á landi séu dagvinnulaun verkafólks allt að þrjátíu prósent lægri en að meðaltali á hinum Norðurlöndunum.

Þá er meiri munur á launum kvenna en karla í öllum starfsstéttum. ASÍ segir það benda til þess að óleiðréttur launamunur kynjanna sé meiri hér á landi en á hinum Norðurlöndunum.

Lesa má samantektina alla hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×