Innlent

Laun stundakennara hækkuð

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Stundakennarar sinna um þrjátíu prósent af allri kennslu skólans.
Stundakennarar sinna um þrjátíu prósent af allri kennslu skólans. vísir/gva
Háskólaráð Háskóla Íslands samþykkti 10.apríl síðastliðinn að hækka laun stundakennara við skólann. Launin verða hækkuð með tvennum hætti; taxtahækkun í samræmi við prófgráðu ásamt því að stundakennarar fá álagsgreiðslu fyrir kennslu sem felur í sér aukna ábyrgð á námskeiði. Þetta kemur fram á vefsíðu háskólans.

Stundakennarar með bakkalárpróf fá 2,4 prósentahækkun. Hækkun stundakennara með meistarapróf nemur 4,7 prósentum og með doktorspróf 7,1 prósenti. Álagsgreiðsla vegna aukinnar ábyrgðar á námskeiði nemur tíu prósenta hækkun á launataxta stundakennara. Breytingin er afturvirk og gildir frá 1. janúar 2015.

Sjá einnig: Kennir sex námskeið en fær ekki að greiða atkvæði í rektorskjöri

Stundakennarar hafa staðið í ströngu við að fá úrbætur sinna mála og aukin réttindi en þeir sinna um þrjátíu prósent af allri kennslu skólans. Sett var á laggirnar nefnd um málefni stundakennara sem hefur það að markmiði að undirbúa úrbætur í kjara- og mannréttindamálum stundakennara. Nefndin hefur haft samráð við ýmsa aðila, þar á meðal Hagstund, hagsmunafélag stundakennara. Skilað verður til háskólaráðs endanlegum tillögum um réttindamál stundakennara á næstunni.

Þá er í undirbúningi könnun á starfsumhverfi stundakennara en hliðstæð könnun var síðast lögð fyrir starfsfólk Háskóla Íslands í árslok 2014. Niðurstöðurnar verða nýttar til að leggja grunn að frekari aðgerðum í þágu stundakennara við Háskóla Íslands, að því er fram kemur í frétt HÍ.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×