Lífið

Láta gott af sér leiða á eins árs afmæli

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Stofnendur og eigendur As We Grow: María Th. Ólafsdóttir, Guðrún Ragna Sigurjónsdóttir og Gréta Hlöðversdóttir.
Stofnendur og eigendur As We Grow: María Th. Ólafsdóttir, Guðrún Ragna Sigurjónsdóttir og Gréta Hlöðversdóttir. Mynd/Vigfús Birgisson.
Hönnunar- og sprotafyrirtækið As We Grow ætlar að láta ágóðann af sölu á húfum og treflum renna til Barnaspítala Hringsins í tilefni þess að eitt ár er liðið frá því vörur fyrirtækisins fóru á markað. Salan fer fram í Spark Design Space á Klapparstíg 33 í dag klukkan 17 til 20.

Hugmyndin að As We Grow varð til út frá peysu sem ferðaðist á milli margra barna í níu ár, varð uppáhaldsflík þeirra allra og er enn í notkun. Hönnunin hefur skírskotun í nýtingu fyrri kynslóða þar sem horft er til þess að fatnaður sem endist lengi fái áhugaverða sögu og verði verðmætari. Sniðin eru miðuð við að hver flík geti vaxið með barninu og þannig fylgt því í nokkur ár. Með því að nota fatnaðinn margsinnis og í langan tíma er umhverfinu sýnd virðing um leið og verið er að skapa tilfinningalegt gildi hverrar flíkur.

Fatnaðurinn er framleiddur í Perú úr alpaca ull sem hefur þá eiginleika að vera silkimjúk en um leið heldur hún góðum og stöðugum hita. Þess vegna hentar ullin vel fyrir barnafatnað. Hönnunin tekur mið af því að fatnaðurinn sé tímalaus og þægilegur fyrir börn frá sex mánaða allt til átta ára aldurs. Litavalið auðveldar síðan að blanda flíkunum saman.

As We Grow var stofnað 2012 af þeim Grétu Hlöðversdóttur framkvæmdastjóra og hönnuðunum Guðrúnu Rögnu Sigurjónsdóttur og Maríu Th. Ólafsdóttur. Að undangenginni vöruþróun sem hófst 2010 voru fyrstu vörurnar settar á markað fyrir einu ári síðan og eru nú seldar í fimm löndum ásamt Íslandi.

“Okkur langaði til að láta eitthvað gott af okkur leiða núna fyrir jólin og þar sem við erum að hanna og selja fatnað fyrir börn fannst okkur því liggja beint við að finna leið til að gleðja börnin á Barnaspítala Hringsins. Ágóðinn verður afhentur forsvarsmönnum Barnaspítalans með þá ósk að peningarnir nýtist vel,” segja eigendurnir. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×