Íslenski boltinn

Lárus Orri tekur aftur við Þór og Kristján Örn verður spilandi aðstoðarþjálfari

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Þór.
Þór. mynd/þór
Lárus Orri Sigurðsson hefur verið ráðinn þjálfari Inkasso-liðs Þórs í fótbolta en þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu. Kristján Örn, bróðir Lárusar, verður aðstoðarþjálfari og stefnt er að því að hann spili með Þórsliðinu næsta sumar.

Lárus Orri þekkir vel til hjá Þór en hann spilaði með liðinu áður en hann fór út í atvinnumennsku. Þá var hann þjálfari liðsins í 1. deildinni frá 2006-2010 en tókst aldrei að koma liðinu upp.

Þessi fyrrverandi atvinnu- og landsliðsmaður þjálfaði KF frá 2011-2013 eftir að hann hætti hjá Þór. Hann á að baki 42 A-landsleiki fyrir Íslands en hann er 43 ára gamall.

Kristján Örn Sigurðsson ólst upp hjá Þór eins og bróðir sinn en spilaði með Völsungi og KA áður en hann hélt út í atvinnumennsku. Þá var hann í meistaraliði KR árið 2003 en Kristján Örn varð einnig noregsmeistari með Brann árið 2007.

Kristján Örn lagði skóna á hilluna fyrir tveimur árum en ætlar nú að rífa þá fram aftur og reyna að spila með Þórsliðinu á næstu leiktíð.

Þór féll úr Pepsi-deildinni 2014. Þá tók Halldór Jón Sigurðsson, Donni, við starfinu af Páli Viðari Gíslasyni. Donni stýrði liðinu í fyrra og í sumar en tókst ekki að koma liðinu upp í Pepsi-deildina á ný. Hann lét svo af störfum fyrir lokaumferðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×