Fótbolti

Lars Lagerbäck: Leikurinn við England sá auðveldasti á EM

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Lars Lagerbäck og Roy Hodgson, þjálfari enska landsliðsins, á hliðarlínunni í Frakklandi. Hodgson hætti með enska liðið eftir tapið gegn Íslandi.
Lars Lagerbäck og Roy Hodgson, þjálfari enska landsliðsins, á hliðarlínunni í Frakklandi. Hodgson hætti með enska liðið eftir tapið gegn Íslandi. vísir/getty
Lars Lagerbäck, fyrrverandi þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, segir að leikur liðsins við Englendinga á Evrópumótinu í Frakklandi í sumar hafi verið auðveldasti leikurinn á mótinu. Þetta kemur fram í viðtali við Lars í uppgjörsþætti sænska ríkissjónvarpsins, SVT, um Evrópumótið en hluti úr viðtalinu hefur verið birtur á vef SVT.

Bæði Íslendingum og Englendingum er leikurinn væntanlega í fersku minni en liðin mættust í 16 liða úrslitum mótsins. Fyrir fram bjuggust flestir við sigri Englendinga enda var þarna stórþjóð í knattspyrnu að mæta liði sem var á sínu fyrsta stórmóti.

Það blés svo sem ekki byrlega fyrir íslenska liðið í upphafi leiks þegar Englendingar komust yfir á 4. mínútu þegar Wayne Rooney skoraði úr vítaspyrnu.

„Andskotinn, þetta var það versta sem maður gat ímyndað sér,“ segir Lars í viðtalinu við SVT.

„Ég legg vanalega mikla áherslu á það við leikmenn mína hversu mikilvægt fyrsta markið í fótbolta er en andlega var það mjög mikilvægt að við jöfnuðum leikinn nánast strax.“

Ragnar Sigurðsson skoraði með skalla á 6. mínútu og á 18. mínútu skoraði Kolbeinn Sigþórsson sigurmarkið.

„Þetta var frábær sókn og ótrúlegt mark og í raun mjög þýðingarmikið því við eiginlega lömuðum Englendingana, þeir voru eins og rotaðir. Ég held að þetta hafi verið auðveldasti leikurinn okkar á mótinu og ég tel að við höfum átt sigurinn skilinn. Þetta var besti leikurinn okkar á mótinu,“ segir Lars.

Hluta úr viðtalinu má sjá hér með enskum texta á vef SVT.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×