Fótbolti

Lars hikaði ekki við að skjóta aðeins á Aron Einar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Einar Gunnarsson í leik á móti Tékklandi.
Aron Einar Gunnarsson í leik á móti Tékklandi. Vísir/Ernir
Það fer vel á með landsliðsþjálfaranum Lars Lagerbäck og landsliðsfyrirliðanum Aroni Einari Gunnarssyni og Svíinn tók því ekkert illa upp þótt að Aron Einar reyndi að stelast aðeins inn í viðtal Vísis við Lagerbäck í gær.

Lars Lagerbäck hikaði ekki við að skjóta aðeins á Aron Einar til baka, allt í góðu samt og í góðum húmor.

Lagerbäck hafði verið spurður af því hver lykillinn væri að frábærri frammistöðu íslenska liðsins í undankeppninni þar sem íslensku strákarnir hafa náð í fimmtán stig af átján mögulegum.

"Ég," greip Aron Einar Gunnarsson inn í með léttleikann að vopni. "Jú Aron Einar er vissulega ein af ástæðunum," svaraði Lars Lagerbäck en hann skaut síðan strax á Aron Einar í kjölfarið:

"Sérstaklega eftir að hann varð faðir því hann þroskaðist svo mikið við það," sagði Lagerbäck hlæjandi og Aron Einar brosti.

Íslenska landsliðið hefur unnið báða leiki sína í undankeppninni síðan að Aron Einar Gunnarsson varð pabbi í fyrsta sinn í lok mars og landsliðsfyrirliðinn skoraði í sigrinum á Tékkum á Laugardalsvellinum í júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×