Fótbolti

Lars: Var efins um gæði 24 liða móts

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Lars Lagerbäck ræddi við fjölmiðlamenn á æfingasvæði íslenska liðsins í Annecy í dag eftir að liðið kom aftur til bækistöðva um hádegisbil. Hann var búinn að fara aftur yfir leikinn og var bæði sáttur og ósáttur með það sem fram fór í Marseille í gærkvöldi.

„Ég var bæði svekktur með úrslitin og að hluta með frammistöðuna. Varnarleikurinn og vinnslan var í háklassa. Ég horfði á leikinn aftur á leiðinni til baka og get ekki kvartað yfir neinu hvað það varðar. Sóknarleikurinn þarf að vera betri," sagði Lars við íþróttadeild.

Íslenska liðið skoraði sjálft jöfnunarmarkið á 88. mínútu eftir pressu frá Ungverjum en Lars fannst strákarnir okkar ekki vera nógu kaldir á lokamínútunum til að ganga frá leiknum.

„Við töluðum líka sérstaklega um föstu leikatriðin. Þegar við vorum 1-0 yfir og lítið eftir fórum við að gera mjög skrítna hluti í föstum leikatriðum eins og að senda boltann þegar enginn var tilbúinn. Við verðum að vera aðeins kaldari í þessum stöðum til að drepa leikinn,“ sagði Lars.

Sparkspekingar hafa haft það á orði að leikur eins og viðureign Íslands og Ungverjalands í gær og leikstíll liðanna sé einmitt ástæðan fyrir því að það var ekki sniðugt að stækka mótið úr 16 liðum í 24. Lars var efins fyrst en ekki lengur.

„Þegar ég frétti að það átti að breyta EM í 24 liða móti hugsaði ég fyrst að gæðin mótsins yrðu minni. Nú þegar ég hef vanist hugsuninni finnst mér þetta góð breyting. Öll liðin hafa sýnt að bilið á milli liðanna er alltaf að minnka í alþjóðaboltanum,“ sagði Lars.

„Leikmenn minni landsliða eru að fara til stærri liða í stærri deildum. Þetta verður alltaf erfiðara fyrir stóru liðin. Þetta er gott fyrir fótboltann á meðan minni liðin eru ekki að tapa með stórum tölum.“

Alla fréttina má sjá í spilaranum hér að ofan.

Ekki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×