Enski boltinn

Langþráður sigur hjá Aston Villa | Hörður og félagar stöðvuðu toppliðið

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Birkir í leik með Aston Villa.
Birkir í leik með Aston Villa. vísir/getty
Birkir Bjarnason kom inn af varamannabekknum í 1-0 sigri Aston Villa gegn Derby á heimavelli í dag en þetta var fyrsti sigur liðsins í tvo mánuði. Með sigrinum lyfti þetta sögufræga félag sér upp í 17. sæti upp fyrir Notthingham Forest.

Það hefur verið mikið rætt um gengi Aston Villa undanfarnar vikur en Steve Bruce, knattspyrnustjóri liðsins, fékk nægan pening til að styrkja liðið í janúar og fékk meðal annars til liðs við liðið landsliðsmanninn Birki.

Miðvörðurinn James Chester skoraði eina mark leiksins á 25. mínútu en Birkir kom inn af bekknum þegar korter var til leiksloka.

Náði hann ekki að setja fyrsta mark sitt fyrir félagið en liðsfélagi hans Leoandro Bacuna fékk beint rautt spjald á 93. mínútu en það kom ekki að sök.

Hörður Björgvin Magnússon kom einnig inn af bekknum í 2-2 jafntefli Bristol City gegn toppliði Newcastle á St. James Park en Bristol glutraði niður tveggja marka forskoti í seinni hálfleik.

Hörður byrjaði leikinn á bekknum en liðsfélagar hans komust snemma 2-0 yfir en hleyptu Newcastle aftur inn í leikinn með sjálfsmarki á 59. mínútu.

Tíu mínútum fyrir leikslok var það svo Cieran Clark sem jafnaði metin fyrir Newcastle en lengra komust heimamenn ekki.

Aron Einar Gunnarsson lék allan leikinn í 2-2 jafntefli á heimavelli gegn Fulham og sá gult spjald í leiknum en Ragnar Sigurðsson var hvergi sjáanlegur í leikmannahóp Fulham.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×