Lífið

Langþráður draumur orðinn að veruleika

Guðrún Ansnes skrifar
Laufey hefur aldrei litað á sér hárið og er stolt af þeim rauðhærðu sem standast freistinguna.
Laufey hefur aldrei litað á sér hárið og er stolt af þeim rauðhærðu sem standast freistinguna. mynd/aðsend
„Ég er búin að bíða eftir þessu lengi, og hef ætlað að taka þátt síðan ég var lítil,“ segir Laufey Heiða Reynisdóttir, nýkjörinn rauðhærðasti Íslendingurinn á Írskum dögum sem fram fóru á Akranesi um liðna helgi. Er um að ræða árlegan viðburð í skemmtanahaldi þessarar bæjarhátíðar.

„Ég titraði af spenningi þegar úrslitin voru lesin upp,“ segir Laufey, en fjölskyldan var saman komin alla leið frá Hólmavík til að styðja við bakið á henni, auk ættingja úr Reykjavík sem gerðu sér sérstaklega ferð á Skagann til að fylgjast með sinni konu.

Ekki er nóg með að Laufey hafi þar með hreppt hnossið sem hún hefur haft augastað á síðan hún var lítið barn, heldur fékk hún utanlandsferð til Dublin á Írlandi í verðlaun.

„Við mamma ætlum að fara saman í ferðina, við vorum búnar að ákveða það,“ útskýrir Laufey glöð í bragði, en mamma hennar er einmitt rauðhærð líka. „Það eru alveg nokkrir rauðhærðir í báðum ættum hjá mér, en við erum samt ekkert tengd Írlandi,“ segir hún og skellir upp úr.

Segist Laufey ítrekað vera spurð út í hárið, og séu ferðamenn þar alveg sér á báti, en þeir virðast elska á henni hárið. „Svo var þarna einn karl á Hólmavík einu sinni, sem var frá Írlandi, hann var fullviss um að ég væri bara írsk,“ segir hún hressilega. 

Laufey segist aldrei hafa litað á sér hárið, og í raun verið bannað það, þar sem hárið þykir svo fallegt. „Ég er mjög stolt af öllum sem ekki lita hárið, sem fólk gerir af ýmsum ástæðum, og leyfir sér bara að vera með sinn lit."


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×