Lífið

Langstærsta hlaup sem haldið hefur verið á Akureyri

Stefán Árni Pálsson skrifar
Magni er talsmaður The Color Run á Akureyri.
Magni er talsmaður The Color Run á Akureyri.
Alls hafa rúmlega þúsund manns skráð sig í The Color Run á Akureyri þar sem hlaupið fer fram laugardaginn 8. júlí.

„Viðtökurnar hafa verið frábærar og miðasala mun meiri en við þorðum að vona. Um helgina sáum við að rúmlega þúsund manns eru nú þegar skráðir í hlaupið hér á Akureyri þannig að við fórum að skoða hver fjölmennustu hlaupin hafa verið í gegnum árin. Samkvæmt áreiðanlegum heimildum er ljóst að The Color Run verður ekki bara stærsta heldur langstærsta hlaup sem haldið hefur verið hér,“ segir Magni Ásgeirsson, talsmaður hlaupsins á Akureyri.

Skráningar í Reykjavík meiri en undanfarin ár Það eru ekki bara norðlendingar sem eru spenntir fyrir The Color Run því skráningar í hlaupið í Reykjavík eru meiri í ár en á sama tíma í fyrra.

„Það er mikill spenningur fyrir hlaupinu í ár og fólk er fyrr á ferðinni að skrá sig en áður, kannski vegna þess að uppselt var í hlaupið árin 2015 og 2016. Núna eru um það bil þúsund fleiri búnir að skrá sig í The Color Run en á sama tíma í fyrra þannig að fólk vill tryggja sér miða í tíma,“ segir Davíð Lúther Sigurðarson, framkvæmdastjóri The Color Run á Íslandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×