Lífið

Langar að sprella í Norður-Kóreu

Gunnar Leó Pálsson skrifar
„Þjóðverjarnir tóku okkur bara vel og höfðu húmor fyrir því sem við vorum að gera. Þjóðverjinn er að jafnaði skemmtilegur og mikill húmoristi,“ segir Egill Ploder Ottósson, einn umsjónarmanna sjónvarpsþáttarins Áttunnar á Bravó, en hann, Nökkvi Fjalar Orrason og Róbert Úlfarsson skelltu sér til München á dögunum og tóku þar upp tónlistarmyndband við lagið Wunderbar.

Lagið er eins og titillinn gefur til kynna á þýsku en tveir af umsjónarmönnum þáttarins eru miklir þýskuunnendur. „Fólk hafði gaman af þessu þó svo að textinn sé ekkert sá flóknasti og líklega ekki sá réttasti málf
ræðilega séð,“ segir Egill, en honum þykir þýskan ákaflega fallegt tungumál.

Þeir félagar luku við sína fyrstu seríu af sjónvarpsþættinum Áttunni síðastliðinn föstudag. „Við erum rosalega ánægðir með viðtökurnar, það er mikill heiður að fá að vinna við það sem maður hefur áhuga á að gera.“

Spurður út í framhaldið segir Egill þá félaga vera með ýmislegt í bígerð. „Okkur langar að gera meira, búa til tónlist og tónlistarmyndbönd. Það er líka gaman að fara svona utan og fanga framandi menningu í myndböndin. Það væri geggjað að fara til Norður-Kóreu og taka upp myndband,“ segir Egill og hlær. „Það vantar aðeins meira sprell þarna í Norður-Kóreu, ég held að við gætum kryddað aðeins tilveruna þar.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×