Innlent

Landspítalinn yfirfullur: Aukinn ferðamannafjöldi meðal ástæðna

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Landspítalinn er yfirfullur og fjöldi fólks bíður á bráðamóttöku eftir leguplássi á deildum. Hátt á annan tug sjúklinga biðu eftir leguplássi á deild nú um helgina, en heldur færri í dag, að sögn Sigríðar Gunnarsdóttur, framkvæmdastjóra hjúkrunar á Landspítalanum. Hún segir ástæðuna meðal annars skýrast af auknum ferðamannafjölda.

„Það hefur verið mikið álag á spítalanum núna síðustu daga. Við erum bara búin að vinna í því í morgun að koma þeim sem þurfa á að halda inn á deildir og svo náttúrulega bætist við þann fjölda líka, þannig að þetta er mjög kvikt ástand,“ segir Sigríður og bæti við að algengt sé að mikið sé að gera á spítalanum á þessum tíma árs.

„Þetta er veikt fólk sem þarf á þjónustu okkar að halda og ekkert eitt sem skýrir það öðru fremur annað en það að við höfum séð fram á fjölgun aldraðra og langveikra og við erum farin að finna verulega fyrir því að það er stærri hópur sem þarf á þjónustu spítalans að halda en verið hefur. Síðan bætast ferðamennirnir við og fólk finnur vel fyrir því.“

Sigríður segir eitthvað hafa verið um sumarlokanir á deildum, en umtalsvert minna nú en áður. Þá spili sumarfrí starfsmanna einnig inn í.

„Það hefur gengið hér maður eftir manns hönd til að láta þetta ganga og fólk hefur verið að koma inn og taka aukavaktir og við höfum verið að reyna að forðast það að kalla fólk inn úr fríum. Enda veitir fólki ekki af því að taka sín frí og hlaða batteríin.“

Hún hvetur hvetur fólk því til að leita á heilsugæslu eða læknavakt, sé um minniháttar veikindi að ræða.

„Það er eðlilegt að leita fyrst á heilsugæslustöð eða læknavaktina með minniháttar veikindi og áverka. Það er alltaf þannig og það er mjög vel þegið að fólk geri það núna. En auðvitað með öll bráð veikindi og alvarleg þá á að leita til okkar fyrst,“ segir Sigríður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×