Innlent

Landspítalinn tekur aðkomu íslenskra lækna til athugunar

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Landspítalinn hefur hafið sérstaka athugun á aðkomu tveggja íslenskra lækna að umdeildri barkaskurðaðgerð sem framkvæmd var árið 2011 og grein sem læknarnir voru meðhöfundar að. Framkvæmdastjóri lækninga segir málið tekið alvarlega innan spítalans.

Tómas Guðbjartsson, skurðlæknir, kom í júní 2011 að aðgerð sem framkvæmd var á Karólínska sjúkrahúsinu í Svíþjóð en hún fólst í því að barki var fjarlægður úr manni og í staðinn settur gervibarki úr plasti. Aðgerðin var sú fyrsta sinnar tegundar en sjúklingurinn lést í janúar í fyrra. Greint var frá málinu í sænska fréttaskýringaþættinum Uppdrag granskning í maí síðastlinum en af þeim átta einstaklingum sem gengust undir aðgerðina létust fjórir.

Nokkrum mánuðum eftir aðgerðina birtist grein um hana í hinu virta læknatímariti Lancet þar sem hún þótti hafa tekist vel. Á meðal höfunda greinarinnar voru Tómas og Óskar Einarsson, skurðlæknir. Í sjónvarpsþættinum kemur fram að margt hefði verið gagnrýnivert við greinina sem birtist í Lancet. Þá er haft eftir belgískum skurðlækni að barkaðígræðslurnar séu einhverjar mestu lygar læknasögunnar. Yfirmenn Karólínska sjúkrahússins hófu í kjölfarið sjálfstæða rannsókn á málinu þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að ítalskur læknir, sem framkvæmdi fyrstu aðgerðina, hefði gerst sekur um misferli.

Málinu er þó ekki lokið. Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga á Landspítalanum, staðfesti í tölvupósti til fréttastofu að Landspítalinn hefði hafið sérstaka athugun á aðkomu Tómasar og Óskars að málinu og að þetta sé tekið alvarlega innan spítalans. Athugunin muni að líkindum taka nokkrar vikur. Sigríður Gunnarsdóttir, starfandi forstjóri Landspítalans, sagði í samtali við fréttastofu í dag að athugun Landspítalans væri ekki lokið. Ekki væri tímabært að tjá sig nánar um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×