Innlent

Landsmenn sjá allir til sólar á morgun

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Hlýjast verður norðaustanlands á morgun.
Hlýjast verður norðaustanlands á morgun. Skjáskot/veðurstofa
Á morgun er gert ráð fyrir að hæðarhryggur fari yfir landið og því lægir vind og rofar til. Á einhverjum tímapunkti munu allir landsmenn sjá til sólar, að því er fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

Í dag er hins vegar útlit fyrir suðaustlæga átt á bilinu 5-13 m/s. Víða um land verður rigning með köflum, einkum þó sunnan- og vestanlands. Tvö regnsvæði ganga yfir landið í dag og svolítið hlé verður á rigningunni á milli þeirra. Hiti verður á bilinu 7 til 17 stig og hlýjast norðaustantil á landinu.

Lægð suður af landi veldur rigningunni í dag og í nótt fer lægðarmiðjan til norðurs yfir landið og áfram verður vætusamt. Í fyrramálið snýst svo í skammvinna vestanátt í kjölfar lægðarinnar og úrkoman fer að minnka, með áðurgreindum afleiðingum.

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á mánudag:

Vestan 8-13 m/s um morguninn og víða rigning, en lægir og styttir upp með deginum. Breytileg átt 3-8 síðdegis, bjart með köflum og yfirleitt þurrt. Hiti 8 til 18 stig, hlýjast austanlands.

Á þriðjudag:

Suðaustan 10-15 suðvestan- og vestanlands með rigningu og súld og hita 8 til 12 stig. Suðaustan 3-10 á Norður- og Austurlandi, léttskýjað og hiti 15 til 20 stig.

Á miðvikudag:

Suðvestan 3-8, skýjað og smásúld eða þokuloft, hiti 7 til 12 stig. Bjartviðri norðaustantil á landinu með hita að 20 stigum.

Á fimmtudag, föstudag og laugardag:

Útlit fyrir vestanátt. Skýjað vestanlands og sums staðar þokuloft, en bjart með köflum annars staðar. Hiti 10 til 20 stig, hlýjast austast á landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×