Innlent

Landsmenn hvattir til að njóta helgarinnar því útlit er fyrir talsverða umhleypinga eftir helgi

Birgir Olgeirsson skrifar
Búist er við djúpri lægð á mánudag en fallegu veðri yfir helgina sem landsmenn eru hvattir til að njóta.
Búist er við djúpri lægð á mánudag en fallegu veðri yfir helgina sem landsmenn eru hvattir til að njóta. Vísir/Vilhelm
Það verður fallegt veður yfir helgina en veðurfræðingur hjá Veðurstofa Íslands hvetur landsmenn til að njóta veðursins yfir helgina því eftir hana er útlit fyrir talsverða umhleypinga.

Í hugleiðingum Veðurfræðings, sem er að finna á vef Veðurstofu Íslands, kemur fram að í dag muni draga smám saman úr úrkomunni á austanverðu landi, en þó stinga sér niður él víða um landið, einkum við suður- og suðausturströndina í kvöld. Vindáttin verður norðaustlæg, hvassast verður við norðurströndina, 8 – 13 metrar á sekúndu.

Á morgun er svipað veður í kortunum en það heldur áfram að kólna og á sunnudag er útlit fyrir vetrarstillur og talsvert frost um allt land. Eftir helgina er útlit fyrir talsverðar umhleypingar, og strax á mánudag gengur nokkuð djúp lægð upp að landinu með hlýindum og talsverðri úrkomu. Það er því um að gera að njóta helgarinnar.

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á sunnudag:

Fremur hæg breytileg átt og víða léttskýjað, en líkur á stöku éljum úti við sjóinn. Talsvert frost.

Á mánudag:

Ört vaxandi suðaustanátt með slyddu síðdegis en sunnan 15-25 m/s og rigning V-til um kvöldið. Suðaustan 8-13 m/s of úrkomulítið NA-til fram á kvöld. Hlýnandi veður, víða frostlaust um kvöldið.

Á þriðjudag:

Útlit fyrir suðlæga átt og talsverða rigningu eða snjókomu A-til á landinu en gengur í norðvestan hvassviðri og snjókomu V-til síðdegis en einnig A-til um kvöldið. Kólnar í veðri, frost um allt land undir kvöld.

Á miðvikudag:

Vestlæg átt, 5-10 m/s og stöku él en snjókoma með norðurströndinni. Frost 0 til 8 stig.

Á fimmtudag:

Breytileg átt, 3-10. Snjómugga á sunnanverðu landinu en annars úrkomulítið. Frost 2 til 10 stig.

Á föstudag:

SA-læg átt, 5-13. Snjókoma eða slydda sunnan- og vestanlands. Frostlaust með suðurströndinni en annars allt að 12 stiga frost.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×