Fótbolti

Landsliðsstrákarnir skoðuðu höfuðstöðvar Google

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/Getty
Íslenska karlalandsliðið í fótbolta leikur vináttulandsleik gegn Írum í Dublin í dag. Strákarnir flugu frá Albaníu til Írlands daginn eftir að liðið vann mikilvægan sigur á Kósóvó í undankeppni HM.

Leikurinn verður ellefta viðureign þjóðanna sem fyrst mættust á Laugardalsvelli í vináttuleik 1958. Þetta er samt bara áttundi leikur a-landsliða þjóðanna en þrír af vináttulandsleikjunum við Íra voru leikir milli a-landsliðs Íslands og b-landsliðs Íra.  

Íslenska karlalandsliðinu hefur aldrei tekist að sigra Írland í tíu leikjum þjóðanna til þessa en sjö af leikjunum hafa endað með sigri Íra. Markatalan úr leikjunum er 21-10, Írlandi í hag.

Íslenska liðið kom til Dublin á laugardag. Eftir frídag á sunnudag hélt undirbúningur fyrir leikinn gegn Írlandi áfram í gær þar sem æft var á Aviva leikvanginum auk þess sem fundað var um leikinn sem framundan er. Heimasíða KSÍ segir frá.

Í gær, mánudag, fékk liðið einnig skoðunarferð um höfuðstöðvar Google á Írlandi sem er stærsti vinnustaður Google utan Bandaríkjanna með fimm til sex þúsund starfsmenn.

Leikurinn í dag hefst kl. 18:45 að íslenskum tíma og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×