Fótbolti

Landsleikjahelgin byrjaði á óvæntum og dramatískum sigri

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gevorg Ghazaryan.
Gevorg Ghazaryan. Vísir/EPA
Fyrsti sigur Armena í undankeppni HM 2018 var af dramatísku gerðinni en Armenía vann 3-2 endurkomusigur á Svartfjallalandi í kvöld.

Svartfellingar voru á toppi E-riðilsins og ekki búnir að tapa fyrir leikinn í kvöld. Armennska liðið hafði aftur á móti tapað fyrstu þremur leikjum sínum og aðeins skorað eitt mark á 270 mínútum.  Úrslitin koma því á óvart og enn frekar miðað við gang mála fyrstu 45 mínútur leiksins.

Svartfellingar höfðu talsverða yfirburði í fyrri hálfleiknum og lið Svartfjallalands var 2-0 yfir í hálfleik. Damir Kojasevic  og Stevan Jovetic skoruðu mörkin með tveggja mínútna kafla á lokakafla hálfleiksins.

Það var því ekki mikið í spilunum fyrir heimamenn sem þurftu að tvöfalda markaskor sitt í undankeppninni bara til að jafna metin og fá eitthvað út úr leiknum.

Armenar lögðu ekki árar í bát og unnu sig inn í leikinn. Það munaði mikið um að fá mark frá Artak Grigoryan eftir aðeins fimm mínútna leik og jöfnunarmark Varazdat Haroyan kom síðan sextán mínútum fyrir leikslok.

Armenarnir voru hinsvegar ekki hættir og pressuðu á lokakaflanum. Það var síðan Gevorg Ghazaryan sem tryggði liðinu öll þrjú stigin með skoti af löngu færi.

Markið kom á þriðju mínútu í uppbótartíma en þremur mínútum hafði verið bætt við. Þetta var því alvöru flautumark hjá Gevorg Ghazaryan í kvöld.

Leikmenn, þjálfarar, starfsmenn og að sjálfsögðu stuðningsmennirnir fögnuðu gríðarlega í leikslok og það verður örugglega mikið fjör og gaman í miðbæ Jerevan í kvöld og nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×