Viðskipti innlent

Landsbankinn opnar fyrirtækjamiðstöð

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Tengiliðir, símanúmer og netföng haldast óbreytt þótt fyrirtækjaþjónusta Landsbankans færist í Borgartún.
Tengiliðir, símanúmer og netföng haldast óbreytt þótt fyrirtækjaþjónusta Landsbankans færist í Borgartún. Fréttablaðið/Daníel
Landsbankinn opnar í dag þjónustumiðstöð fyrir minni og meðalstór fyrirtæki að Borgartúni 33 í Reykjavík.

Þangað hafa flust allir starfsmenn fyrirtækjaþjónustu útibúa bankans á höfuðborgarsvæðinu.

Breytingunum fylgja ekki uppsagnir starfsfólks, að því er fram kemur í tilkynningu. Með breytingunum nái bankinn þó fram hagræðingu í rekstri um leið og þjónusta við viðskiptavini eflist.

„Fyrir í Borgartúni 33 eru útibú bankans, Landsbréf hf. og Bíla- og tækjafjármögnun Landsbankans,“ segir í tilkynningunni.

Nýtt fyrirkomulag er sagt gefa bankanum kost á að bjóða fyrirtækjum umfangsmeiri ráðgjöf en áður, aðgengi að sérfræðingum verði betra og hægt að afgreiða erindi hraðar.

Þá kemur fram að heimsóknir til fyrirtækja verða einnig stór hluti starfsemi fyrirtækjamiðstöðvarinnar í Borgartúni.

„Fyrirtæki munu halda sínum tengiliðum, símanúmer og netföng haldast óbreytt, bankanúmer einnig og áfram verður hægt að nota útibú bankans á höfuðborgarsvæðinu sem fundarstaði. Allt kapp er því á það lagt að dagleg starfsemi viðskiptavina raskist ekki á neinn hátt,“ segir í tilkynningu bankans.

Þorsteinn Stefánsson, sem áður gegndi stöðu útibússtjóra í Grafarholti, veitir fyrirtækjamiðstöðinni forstöðu. Undir hans stjórn starfa þrír svæðisstjórar.

Þau eru Arnheiður Klausen Gísladóttir, sem sinnir Austurbæ, Miðborg, og Vesturbæ; Yngvi Óðinn Guðmundsson, sem sinnir Hafnarfirði og Kópavogi; og Friðgeir Magni Baldursson, sem annast Breiðholt og Grafarholt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×