Viðskipti innlent

Landsbankinn greiðir út tæpa 25 milljarða í arð

Kjartan Kjartansson skrifar
Aðalfundur Landsbankans var haldinn í dag.
Aðalfundur Landsbankans var haldinn í dag. Vísir/GVA
Nánast allir þeir 24,8 milljarðar króna sem aðalfundur Landsbankans samþykkti að greiða út í formi arðs í dag rennur til ríkisins. Formaður bankaráðs gagnrýndi sérstaka skatta á stóru bankana þrjá sem skekktu samkeppnisstöðu þeirra gagnvart erlendum fjármálafyrirtækjum.

Annars vegar er um að ræða 15.366 milljóna króna arð vegna rekstrarársins 2017, sem samsvarar um 78% af hagnaði ársins, og hins vegar sérstakan arð til hluthafa að fjárhæð 9, milljónir króna sem bankaráðið lagði til. Alls munu arðgreiðslur bankans á árunum 2013-2018 því nema um 131,7 milljörðum króna, að því er segir í tilkynningu frá bankanum.

Íslenska ríkið á 98,2% hlutafjár í Landsbankanum og renna því nær allar arðgreiðslurnar til þess. Gjalddagi arðgreiðslunnar fyrir árið 2017 er 28. mars en sérstöku arðgreiðslunnar 19. september.  

Arðgreiðslurnar eru sagðar í samræmi við arðgreiðslustefnu bankans en þar er gert ráð fyrir að reglulegar arðgreiðslur verði að jafnaði 60-80% af hagnaði fyrra árs og að einnig skuli stefnt að sérstökum arðgreiðslum til þess að auka hagkvæmni í fjármagnsskipan bankans. Við ákvörðun um arðgreiðslur verði tryggt að bankinn uppfylli lögbundnar kröfur á hverjum tíma og viðhaldi sterkri fjárhagsstöðu.

Í tilkynningunni er vitnað í ræðu Helgu Bjarkar Eiríksdóttur, formanns bankaráðs Landsbankans, á aðalfundinum í dag. Helga Björk sagði að góður rekstur bankans og traustur efnahagur hefði gert honum kleift að greiða út verulegan arð til hluthafa.

Þá ræddi hún um sérstaka skatta sem lagðir eru á stóru bankana þrjá og hvernig skattheimtan skekkti samkeppnisstöðu þeirra, meðal annars gagnvart erlendum bönkum.

Helga Björk sagði að einn liður í að bregðast við vaxandi samkeppni, örum breytingum á bankaþjónustu og vaxandi kröfum um hagræðingu í rekstri, væri að sameina alla miðlæga starfsemi bankans í nýjum húsakynnum. Við Austurhöfn í Reykjavík myndi bankinn reisa hagkvæmt hús sem mæti þörfum nútímafjármálafyrirtækis og auðveldi samvinnu milli ólíkra deilda bankans.

Á aðalfundinum voru kjörnir aðalmenn í bankaráðið. Helga Björk var endurkjörin formaður en auk hennar eiga þau Berglind Svavarsdóttir, Einar Þór Bjarnason, Hersir Sigurgeirsson, Jón Guðmann Pétursson, Samúel Guðmundsson og Sigríður Benediktsdóttir sæti í ráðinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×